Ropar og magavandræði á meðgöngu

20.01.2009

Hæ hæ!

Ég er gengin um 12-13 vikur og hef verið að ropa stanslaust í svona 4 vikur. Það virðist bara ágerast! Ég er oft að ropa viðstöðulaust í marga klukkutíma eftir að ég borða. Þetta er oft svo slæmt að ég á erfitt með að sofna! Stundum fylgir brjóstsviði með en alls ekki alltaf. Ég hef ekki átt við þetta vandamál að stríða áður en þetta er fyrsta meðganga. Þetta er alveg að gera út af við mig. Er þetta algengt? Er eitthvað ráð sem dugar?

Kær kveðja, Sara.

 

 

Sæl Sara!

Það sem þú ert að lýsa er vel þekkt fyrirbæri og flestar konur finna fyrir þessu í einhverju mæli. Ástæðan fyrir þessu er aukið magn hormóna á meðgöngunni sem veldur slökun í sléttum vöðvum.  

Það sem þú getur gert til þess að draga úr þessu er að forðast allan feitan og kryddaðan mat. Einnig þarftu að forðast matvæli sem eru mjög loftmyndandi  eins og kálmeti, lauk, baunir og vínber. Það er gott að borða oftar og lítið í einu og forðast að drekka gos, kaffi og svart te. Það er víða mælt með því að draga úr vökvainntekt með máltíð en drekka þess meira milli máltíða. Ósæt jógúrt og Ab mjólk getur hjálpað til að hafa áhrif á magasýrurnar. Þegar þú ferð að sofa getur verið gott að hafa hátt undir höfðinu. Ef þessi gömlu húsráð duga ekki eru til sýruhamlandi lyf, brjóstsviðatöflur, í apótekinu sem þó er ekki æskilegt að nota of mikið af.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
20. janúar 2009.