Að njóta meðgöngunnar - saman

05.06.2007

Ég er að spá í einu , er ekkert hægt að gera saman , við hjónin sem sagt?
Okkur langar svo að fara saman í meðgöngu jóga eða sund eða eitthvað , sé bara altaf fyrir konuna en ekki fyrir bæði. Veistu um eitthvað svoleiðis sem við getum skoðað?  Það tók okkur langan tíma að verða ólétt en það tókst með hjálp Art Medica og okkur langar svo mikið að njóta þess bæði saman að vera ólétt :)
Með von um svar sem fyrst kveðja bumbulína :)


Komdu sæl og takk fyrir skemmtilega fyrirspurn.

Jú það er svo margt sem hægt er að gera saman en bara ekki í hóp með öðrum óléttum pörum, nema auðvitað að fara á foreldrafræðslunámskeið.  Þar sem óléttar konur þurfa svolítið öðruvísi meðferð en aðrir þá hefur það ekki þótt spennandi fyrir pabbana að fara t.d. í jóga eða meðgöngusund þar sem allt miðast við óléttar konur og ég held kannski að þeir myndu ekki "fíla" þannig hreyfingu sjálfir.  Hinsvegar getið þið stundað hreyfingu saman t.d. gönguferðir eða farið í ræktina ef þú ert vön að vera í ræktinni, farið saman í sund o.s.frv. Þið getið svo líka farið saman og látið dekra við ykkur eins og að fara í nudd, þú færð bumbubekk og meðgöngunudd og hann eitthvað annað.  Svona mætti lengi telja og um að gera að njóta meðgöngunnar og gera það sem hugurinn girnist - saman (innan ákveðinna marka þó). 

Bestu kveðjur

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
5. júní 2007.