Spurt og svarað

02. nóvember 2006

Sælgætisát og stærð barns

Mig langaði að vita hvenær það sé athugað hvort maður megni að fæða barnið sökum grannrar mjaðmagrindar? Er komin rúma 6 mánuði og fyrir utan risakúlu og brjóst þá er ég alveg jafn mikil mjóna og ég var fyrir. Þess vegna hef ég nú leyft mér eitt og annað á meðgöngunni, tek það reyndar fram að ég borða vel og hollan mat en auk þess er ég pínulítið nammisjúk. Ég er með mjög granna mjaðmagrind og hef áhyggjur af því að barnið verði of stórt fyrir mig til að fæða eðlilega.  Þetta angrar mig því ég vil alls ekki enda í keisara.  Getur nokkuð verið að barnið verði stærra af nammiátinu?

Svo hef ég heyrt svo margar hryllingssögur af börnum sem eru áætluð minni en þau eru en koma síðan 6-8 merkum stærri en áætlað og síðan þarf að taka neyðarkeisara eða konan nær að fæða en rifnar hreinlega í tætlur, mig langar mig sko alls ekki að lenda í.

Er það ekki rétt skilið að eftir 20 vikna sónarinn er sú tækni ekkert notuð meira, nema í einstaka tilfelli?

Er nóg að þreifa fyrir barninu til að áætla stærð?  Þarf ekki nákvæmari tæki?  Get ég gert eitthvað til að barnið verði ekki svona stórt? Get ég krafist þess að fara í auka sónar til að áætla höfuðstærð og þyngd þegar nær dregur fæðingu? Get ég látið framkalla fæðingu fyrir 42 vikurnar, jafnvel fyrr til að lenda ekki í keisara?  Meika ekki tilhugsunina um að vera opnuð á þennan hátt.

Af hverju eru fædd börn á hinum norðurlöndunum almennt 500gr léttari en hér?  Hverju erum við að klúðra í mataræðinu?

Með fyrirfram þökk, nammigrísla.

 


 

Komdu sæl og takk fyrir áhugaverðar spurningar,

Ég held að þú þurfir síður en svo að hafa áhyggjur af því að þú sért að „fita“ barnið þitt of mikið, eftir því sem þú skrifar sýnist mér að þú sért meðvituð um það að borða skynsamlega og þótt þú fáir þér af og til svolítið sælgæti ætti það að hafa lítil áhrif á raunverulega stærð barnsins. Það er nefnilega þannig að grannar konur geta átt stór börn og þungar konur geta átt lítil börn. Rannsóknir á Íslandi hafa sýnt að hávaxnar konur fæða stærri börn hérlendis og vissulega getur mikil þyngdaraukning leitt til aðeins meiri þyngdaraukningar hjá barni, en það er þó alls ekki algilt. Hjá konu sem er heilbrigð á meðgöngunni er þetta þó yfirleitt ekki vandamál. Konur sem t.d. greinast með sykursýki á meðgöngu þurfa hins vegar að passa sig á sykuráti og þessar konur þurfa ráðleggingar við mataræði og stundum lyfjameðferð til að barnið vaxi ekki um of í móðurkviði (en það er fylgst mjög vel með einkennum um meðgöngusykursýki hjá íslenskum konum í mæðravernd).

Samkvæmt þinni sögu virðist þó þyngdaraukning alls ekki vera vandamál, en eitthvað hefur þú greinilega bætt á þig og eins og þú veist þá eru ráðleggingar um þyngdaraukningu á meðgöngu frá u.þ.b. 12-16 kg fyrir konu í kjörþyngd, sem sagt mjög breitt bil. Talað er um að kjörþyngd barna sé á milli 3500-4000 g og meðaltal íslenskra barna er um 3750 g. Rannsóknir hafa sýnt að börn sem fæðast í þessari þyngd eru  í minni hættu á að fá ýmsa sjúkdóma eins og kransæðasjúkdóma síðar á lífsleiðinni, þannig að þú skalt ekki vera hrædd um að fæða „eðlilega“ íslenskt stórt barn. Hærri meðalfæðingarþyngd barna almennt tengist yfirleitt velmegun, góðri þjóðfélagsstöðu og heilbriðgum lífsháttum, sem skýrir kannski að einhverju leyti hvers vegna börn á Norðurlöndum eru þyngri en önnur börn. Aðrir þættir sem hafa m.a. áhrif  á fæðingarþyngd eru t.d. hæð móður, meðgöngulengd og strákar fæðast aðeins stærri. Hvers vegna íslensk börn eru stærri en börn á hinum Norðurlöndum átti ég erfitt með að finna bein svör við, en gæti m.a. tengst t.d. því að konur reykja síður á Íslandi en á hinum Norðurlöndum og gæti líka tengst því að við borðum meira af fiskafurðum. Faraldsfræðileg rannsókn frá 1985 sýndi t.d. að færeysk börn voru mun stærri að meðaltali heldur en í dönsk börn, en því miður held ég að erfitt sé að fá nákvæmt svar við þessari spurningu. Sem betur fer er það yfirleitt þannig að mæður geta fætt þessi „stóru“ börn sín. Í gamla daga var það þannig að flestar konur fóru í grindarmælingar til að fá vitneskju um hversu stór grindin væri og fengu þar með leyfi til að fæða eðlilega. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að þessi mæling er mjög ónákvæm, sérstaklega þar sem hægt er að opna og víkka grindarinngang í fæðingunni sjálfri t.d. með því að breyta um stellingu. Vissulega eru þó undantekningar á þessu og í völdum tilfellum er hægt að gera mat á grindarmálum með röntgenmynd, t.d. ef konu langar til að fæða barn í sitjandi stöðu eða ef konan er talin vera með „óeðlilega“ litla grind. Þetta ættir þú að tala við um ljósmóðurina þína í mæðravernd hvort hún meti það þannig að þín grind sé eitthvað óeðlilega lítil.

Hvað varðar það að gangasetja fæðingu fyrir tímann til að barnið stækki ekki um of,
er mjög umdeild aðgerð. Sérstaklega í ljósi þess að það er alltaf aukin hætta á að fæðing endi með keisarafæðingu við gangsetningu, þar sem líkaminn er alls ekki búinn að gefa merki um að hann sé tilbúinn til að fara í fæðingu og stundum tekst ekki að fá líkamann til að taka raunverulega við sér. Ef þú vilt alls ekki fara í keisara, er þess vegna mjög óskynsamlegt að fara fram á gangsetningu. Frekar að bíða bara róleg og treysta því að allt fari vel. Fyrsta skrefið er að undirbúa sig vel fyrir fæðinguna og „langa til að fæða“ og þar ert þú á grænni grein!

Hvað varðar spangarrifur í fæðingum er erfitt að svara því hvers vegna sumar konur rifna verr en aðrar, en það þarf alls ekki að vera vegna þess að barnið sé sérstaklega stórt sem valdi því að konan rifnar illa. Margt spilar þar inn í, eins og t.d. fæðingarstelling, vefjagerð móður, lengd rembingsstigs svo eitthvað sé nefnt.

Ég skil það vel að það hljómar kannski ekki mjög traustvekjandi í þessum „tækniheimi“ að treysta svo á „höndina“ að hún geti metið þyngd barns með þreifingu einni saman. Og vissulega er hún ekki óskeikul, en oftast dugar hún mæta vel. Yfirleitt skeikar ekki meira en ± 500g (sem er ca 10% af þyngd barns) og mjög sjaldan um 1,5-2 kg eins og þú talar um. Ef hins vegar ljósmóðirin þín í mæðraverndinni finnst barnið þitt vera að dafna óeðlilega vel eða illa er hægt að biðja um vaxtarsónar en skekkja í þeirri mælingu getur líka verið ± 10% og jafnvel meira. Það er erfitt fyrir mig að svara því hvort þú getur krafist þess að fara í sónar til að vita nánar um stærð barnsins, það verður þú að ræða um við ljósmóðurina þína eða lækni í mæðravernd. Ég vona að þeirra svar verði a.m.k. þannig að það svari þínum vangaveltum og láti þér líða betur, ef til þess kemur að þú hefur áfram áhyggjur af því að barnið þitt verði eða sé of stórt.

Kærar kveðjur og gangi þér vel

Yfirfarið 28.10.2015


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.