Spurt og svarað

23. nóvember 2013

Samdrættir

Góðan daginn og takk fyrir góðan vef!
Þannig er að ég hef verið með samdrætti með túrverkjum og þrýstingi niður á grindarbotn frá því á 16 viku (er núna um 23 vikur) og hef farið í leghálsmælingu tvisvar vegna þess. Læknirinn minn setti mig fyrir viku á lyf sem heitir Lutinus vegna þess en hann minntist ekkert á vinnu og ég hafði ekki rænu á að spyrja útí það. Ljósmóðirin mín segir svo að ekki sé nein ástæða til að taka því rólega eða minnka vinnu þar sem ég sé komin á lyf. Nú eru samdrættirnir alltaf meiri því meira sem ég geri svo ég er að velta fyrir mér hvort það sé virkilega ekkert óhollt að vera í fullri vinnu þegar maður er kominn með samdrætti með verkjum svona snemma? Tek það fram að ég er með fleiri börn og á yfirleitt erfitt með hreinlega að standa í lappirnar fram að kvöldmat. Og eitt enn, er ljósbleik útferð eðlileg á þessum tíma eða getur hún verið aukaverkun af Lutinus eða kannski eitthvað annað?
Bestu kveðjur, marsbúi
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina!
Venjulega er mælt með að konur hlusti á líkama sinn og minnki álag þegar þær eru með samdrætti. Þá er bæði verið að tala um andlegt og líkamlegt álag. Þó svo þú sért komin á lyf er ekki þar með sagt að samdrættirnir eigi að hætta ef álagið er hið sama.
Lyfið Lutinus er venjulega notað til að viðhalda þungun á fyrstu vikum meðgöngu þar til fylgjan er farin að framleiða progesteron. Rannsóknir hafa sýnt að það geti minnkað líkur á fyrirburafæðingu hjá konum sem hafa áður fætt fyrir tímann og er því oft notað fyrirbyggjandi. Rannsóknir hafa hinsvegar ekki sýnt fram á að lyfið minnki eða stoppi samdrætti en fræðileg ætti það að virka til að minnka næmni legsins til að draga sig saman og því er lyfið stundum notað til þess.
Eðlilegt er að útferð aukist þegar lyf eins og Lutinus eru notuð líkt og önnur lyf sem eru gefin í leggöng, útferðin ætti þó aðeins að vera glær eða hvítleit en ekki bleik.
Það er yfirleitt ekki eðlilegt að vera með aukna samdrætti með verkjum á þessum tíma meðgöngu. Samdrættir sem koma af og til og hætta við hvíld teljast eðlilegir, þegar samdrættir eru fleiri en 4 á klukkustund með verkjum teljast þeir ekki eðlilegir.
Ég hvet þig til að ræða aftur við lækninn sem ávísaði lyfinu.
Gangi þér vel.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
23. nóvember 2013
.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.