Samdrættir eða hreyfingar

02.04.2007

Góðan daginn og innilegar þakkir fyrir góðan vef.

Þetta er mín fyrsta meðganga og daglega heimsæki ég vefinn sem hefur svarað ótal spurningum sem brennt hafa á mér.  En nú er eitt að vefjast fyrir mér sem ég hef enn ekki fundið svar við. Þegar samdrættir eiga sér stað, er það þá alltaf og undantekningalaust allt legið sem dregst saman eða geta það verið einstaka svæði í leginu?
Ég er gengin tæpar 28 vikur og er að velta fyrir mér hvort ég sé að finna fyrir litla kroppnum þarna inni (að hann sé bókstaflega að þrýsta sér fram) eða hvort þetta eru staðbundnir samdrættir því þetta er svo sannarlega á mjög afmörkuðu svæði. Ég vona að þetta sé ekki of ruglingsleg spurning.

Vorkveðjur, Bumba.


Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Legið í þér er stór vöðvi og við ákveðnar kringumstæður kemur samdráttur í legvöðvan (allan) og hann herpist saman og verður harður viðkomu. Það er misjafnt eftir konum hversu „ertanlegt“ legið er, það er að segja hversu auðveldlega samdráttur kemur í það.  Kannski er þitt leg þannig að það kemur auðveldlega samdráttur í það, til dæmis þegar barnið þitt hreyfir sig eða sparkar.  Eftir því sem barnið stækkar verða kröftugri hreyfingar og spörk hjá því, sem þú finnur fyrir á staðbundnu svæði.  Því er líklegt að þetta séu spörk frá barninu sem þú finnur.

Vona að þetta svari spurningu þinni.

Kær kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
2. apríl 2007.