Samdrættir í tvíburameðgöngu

02.07.2007

Hæ, hæ!

Ég er búin að renna í gegnum allar fyrirspurnir í sambandi við samdrætti en ég finn ekki almennilega svar við vandanum mínum.  Það er þannig að ég er með tvíbura, komin 21 viku á leið. Ég er búin að vera með samdrætti frá 15. viku, fyrst bara af og til, svo á 17. viku voru þeir tveir á klst en nú eru þeir orðnir 4 á klst yfir allan daginn. Er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af? Ég er dugleg að hvíla mig, er ekki mikið að taka á, drekk mikið vatn og það eru engir verkir sem fylgja. Vona að þú hafir gott svar handa mér til að minnka áhyggjurnar mínar.


Sælar!

Reglulegir samdrættir eru mjög oft í tvíburameðgöngum eins og þú lýsir þeim. Það er mikilvægt að þér séu verkjalausir en ef að það koma verkir - þá höfum við áhyggjur af þeim - þar sem að það er alltaf hætta á fyrirburafæðingu. En þar sem þú lýsir samdráttum sem eru að aukast þá finnst mér ráðlegt að þú talir við þína ljósmóður í mæðravernd um samdrættina. Það skiptir máli að forðast áreynslu og helst að vera í hvíld, þá lagast samdrættirnir oft.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
2. júlí 2007.