Spurt og svarað

07. janúar 2008

Samdrættir og fyrirvaraverkir

 Sælar
Ég er á 29. viku og hef undanfarið verið með svo mikla samdrætti. Þeir koma við minnsta álag t.d. bara að standa upp úr sófanum og alltaf þegar ég geng meira en nokkur skref, t.d. upp stiga.  Lang oftast eru þeir samt verkjalausir.  Ég fæ samt samdrætti með verkjum ca. 4-6 sinnum á dag, vakna oft 1-2 á nóttu við staka verki og fæ svo aftur nokkrum sinnum yfir daginn samdrætti með verkjum auk mjög margra verkjalausra.
Ljósmóðirin mín sagði að ég skyldi bara hafa samband ef fyrirvaraverkirnir koma með minna en 10 mín millibili. Gildir það líka um verkjalausa samdrætti? Er þetta e-ð til að hafa áhyggur af? Er pínu stressuð yfir þessu......


Komdu sæl

 

Samdrættir eru eðlilegir á meðgöngu og eru taldir vera hluti af undirbúningi legsins fyrir komandi fæðingu.  Samdrættir ættu samt ekki að vera fleiri en 4 á klukkutíma, ef þeir eru fleiri en það er ástæða til að láta skoða það nánar.  Samdrættir með verkjum eru kallaðir fyrirvaraverkir og eru svo sem ekki neitt frábrugðnir hinum nema verkir fylgja.  Einn og einn þannig er ekkert til að hafa áhyggjur af.

Auknir samdrættir og fyrirvaraverkir geta líka verið merki um eitthvað annað eins og þreytu og þurrk.  Ef þér finnst samdrættirnir miklir hjá þér skaltu prófa að leggjast fyrir og hvíla þig og drekka vel.  Stundum koma samdrættir vegna þvagfærasýkingar á meðgöngu, þannig að ef þú ert gjörn á að fá þvagfærasýkingar skaltu endilega láta skoða það.

Vona að þetta svari spurningunni.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
07.01.2008

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.