Samdrættir og fyrri keisari

08.07.2012

Komið sæl!

Ég er komin 37 vikur með annað barn (fyrra barnið fæddist með keisara) og er búin að finna fyrir miklum fyrirvaraverkjum. Sárustu verkirnir hafa komið á nóttunni eða seint á kvöldin, þeir geta verið að koma óreglulega í marga klukkutíma en þó missárir. Þessir sáru verkir vara í að minnsta kosti mínútu og leiða aftur í allt mjóbakið. Auðvitað er ég bara að bíða eftir að það byrji að koma hríðar reglulega, en hafa svona sterkir samdrættir einhver áhrif ef tekið er tillit til fyrri keisara? Þ.e.a.s þarf ég að hafa einhverjar áhyggjur?
Sæl!

Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af samdráttunum, þeir ættu ekki að hafa áhrif á keisaraörið. Samdrættir eru nauðsynlegur undirbúningur líkamans fyrir fæðinguna og geta verið missterkir, stundum finna konur, sem hafa farið í keisaraskurð, aðeins til í örinu þegar þær fá samdrætti/hríðir. Þú ert alveg að hugsa þetta rétt þ.e. að bíða eftir að hríðir verði reglulegar.
Gangi þér vel

Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
8. júlí 2012