Spurt og svarað

08. desember 2017

Formjólk, stuttir lúrar, vatnskenndar hægðir og minni þyngdaraukning

Sælar og takk fyrir frábæra síðu. Ég er með 3ja mánaða stelpu sem virðist bara dafna ágætlega. Hún er yfirleitt vær og góð og hjalar og hlær. Að því sögðu, virðist hún vera þessi snögga týpa á brjóstinu, eins og eldri bróðir hennar var, aldrei mikið meira en svona 5-7 mín eða svo. Hann var alltaf bara sáttur eftir brjóstið, hætti og var bara glaður eða sofnaði. Hún virðist aftur á móti vilja meira. Hún ókyrrast mjög ef hún þarf að sjúga nokkrum sinnum áður en losunarviðbragðið kemur, sýgur svo af fullum krafti og ég finn og heyri allt streyma hratt. Svo pirrast hún aftur mikið þegar fer að hægjast á flæðinu, kannski eftir svona 2-3 mín. Slítur sig af, vill aftur og er æst en tekur alltaf bara einn sopa og slítur sig af, aftur og aftur. Þar til ég nenni ekki þessu ströggli lengur og set hana þá á hitt brjóstið þar sem mjólkin kemur um leið og hún sýpur af kappi þar til það fer að hægjast á þar og þá hefst sama saga. Ég prófa stundum að láta hana þá aftur á fyrra brjóstið og nokkrum sinnum til skiptis og hún lætur alltaf eins. Þá sting ég oft snuddu upp í hana og hún er bara sátt með það. Þannig ég er frekar ringluð hvort hún yfirhöfuð vilji meira fyrst hún er ekki reið að fá snuðið í staðinn fyrir brjóstið? Ég hef líka prófað að kreista aðeins úr mér eftir gjöf til að athuga hvort ég sé hreinlega galtóm en það kemur alltaf eitthvað. Hef líka prófað að pumpa mig og ég næ svona 40-50 ml en það kemur hægt. Hún sefur voða stutta lúra á daginn, 30-50 mín í einu og vakir svo álíka lengi á milli. Nokkra svona lúra yfir daginn. Sefur svo 4-5 tíma í senn á nóttunni, vaknar 1-2 sinnum til að drekka og sofnar oftast bara strax aftur. Eldri bróðir hennar var svona líka og jafnvel verri og fór ekki að taka lengri lúra fyrr en hann komst í 1-2 lúra á dag sem var milli 6 mánaða og 1 árs. Hægðirnar hennar eru svo gott sem á vökvaformi. Hjúkrunarfræðingurinn í eftirlitinu mælti með að prófa acidophilus en mér fannst hún verða virkilega pirruð og óvær af því svo ég gafst upp. Er samt ekki frá þvi að eftir 3 daga á þvi hafi þær lagast aðeins. Hun þyngdist mjög vel fyrsta rúma mánuðinn en hefur aðeins verið að fatast flugið. Innan marka vilja þau meina í eftirlitinu. Nú hef ég bara áhyggjur af því hvort hún sé að fá nóg, hvort hún sé mest að fá af formjólkinni og hvort þetta hafi áhrif á svefninn hennar? Og hægðir? Því fyrsta 1-2 mánuðina svaf hún lengri lúra og var þolinmóðari á brjóstinu. Bestu kveðjur.

Heil og sæl mér heyrist þetta vera allt með eðlilegum hætti. Börn eru misjöfn í skapinu og kannski er hún óþolinmóða týpan. Ef hún heldur sér í kúrvu í þyngdinni og hún sefur ágætlega á næturnar þá er allt í lagi. Sum börn sofa frekar stutt á daginn en hugsanlega oftar. Það er í raun engin formúla um hvernig þetta á að vera. Hvert barn er einstakt. Svo ef nætursvefinn er sæmilegur eins og mér heyrist vera og þyngdaraukning er á kúrvu er ekki ástæða til að hafa áhyggjur. Gangi þér vel. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.