Engar blæðingar

20.12.2017

Sæl, þannig er það að ég hef haft litlar og óreglulegar blæðingar síðan í ágúst 2016. Í sumar fór ég ekki á blæðingar að verða 3 mánuði. Pantaði tíma hjá kvennsjúkdómalækni sem sá að ég ætti að hefja blæðingar á næstu vikum. Sem stóðst. Ég fór ekki aftur á blæðingar fyrr en núna 5 desember. Ekki ólétt s.s. Bara virkilega óregluleg. En þetta er í fyrsta skipti síðan í fyrra sem ég hef átt blæðingar eins og þær hafa áður verið hjá mér. Nú erum við hjúin búin að vera að huga að barneignum síðan í apríl en þar sem egglos hefur eitthvað verið ábótavant þarf að skoða aðrar lausnir. Ég á að panta tíma aftur hjá lækninum í byrjun árs. En ég er alltaf að þrjóskast við og að við munum verða ólétt núna. Ég á 2 börn, ung en mætti vera duglegri að hreyfa mig. Getur verið að ég sé bara allt í einu ófrjó? Eða eigi erfitt með það? Hvað get ég gert heima við, annað en það augljósa? Og hvert er hugsanlega næsta skref hjá kvennsjúkdómalækninum? Þetta vekur mér miklu hugarangri, þar sem hin 2 komu undir við litla umhugsun.

Heil og sæl, já þetta getur stundum verið svolítið flókið og þessar óreglulegu blæðingar benda svolítið á að hugsanlega sé hormónastarfssemi þín eitthvað smávægilega trufluð. Til að auka líkur á þungun er gott að lifa reglubundnu lífi og stunda reglulegt kynlíf, sér í lagi þar sem erftitt er að reikna út egglos tímann hjá þér. Þú þarft að sofa nóg, hreyfa þig reglulega, borða hollann mat og í hófi en samt nægan. Reyna að forðast streitu, áfengi, reykingar og önnur fíkniefni. Þetta á einnig við um manninn þinn. Hann ætti líka að forðast mjög heit böð og gufuböð amk. ekki vera mjög lengi í senn. Ekki er talið æskilegt að sæðisfrumurnar hitni of mikið. 
Líkast til mundi kvensjúkdómalæknir byrja á að skoða hormónabúskap þinn og sjá til þaðan. Gangi ykkur vel.