Samdrættir við fullnægingu

15.01.2007

Hæhæ og takk fyrir frábæran vef.

Mig langaði til að spyrja í sambandi við fullnægingu hvort að barnið finni fyrir samdráttum sem verða í leginu og einnig hvort eitthvert hormónaflæði  fari af stað sem hefur á einhvern hátt áhrif hvort sem er góð eða slæm. Er gengin 23 vikur og gengur rosa vel. :-)


Komdu sæl

Já við fullnægingu losna ýmis hormón úr læðingi sem hafa áhrif á móður og barn.  Helst þessara hormóna er Oxytocin (ástarhormón) sem stuðlar að vellíðun og tengslamyndun, móðurtilfinningu hjá konum og verndartilfinningu hjá körlum.  Styrkur þessa hormóns eykst við fullnægingu og veldur samdráttum en á meðgöngunni er eðlilegt að samdrættir verði í leginu og er það hugsanlega undirbúningur fyrir fæðinguna en einnig geta þeir stuðlað að auknum þroska barnsins í móðurkviði.  Barnið finnur þessa samdrætti en þeir trufla það ekkert.  Ef mömmunni líður vel líður barninu líklega líka vel. 

Með kveðju

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
15. janúar 2007.