Spurt og svarað

13. desember 2008

Að verða ólett aftur eftir endurtekin fósturlát

Sælar og takk kærlega fyrir frábæran vef.

Þannig er mál með vexti að ég varð ólétt (planað) í janúar á þessu ári. Ég fór í snemmsónar komin 7 vikur og þá var okkur tjáð að það væri líklegast ekki í lagi með þungunina. Tveimur vikum síðar fórum við svo aftur í snemmsónar sem staðfesti það að um dulið fósturlát væri að ræða. Við fengum hins vegar aldrei að vita hvers konar dulið fósturlát væri um að ræða. Ég var allavega drifin í aðgerð strax samdægurs. Í nokkrar vikur eftir aðgerðina var ég enn með jákvæð þungunarpróf þó svo að það ætti ekki að vera hægt. Í skoðuninni eftir aðgerðina kom allt flott út, ekkert varð eftir og allt var að dragast saman. Af hverju var ég þá með jákvæð próf svona lengi? Mig grunar einnig að ég hafi orðið  ólétt tvisvar sinnum eftir þetta. Í fyrra skiptið fór ég í snemmsónar komin 6 vikur og þá sáum við blöðru á eggjastokknum en ekkert annað en við fengum mynd og hamingjuóskir frá lækninum. Vegna fyrri meðgöngu var ég send í blóðprufu og gildin mæld og reyndust þau of lág (neikvætt). Í seinna skiptið fékk ég jákvætt þungunarpróf en fór á blæðingar. Er þetta eðlilegt ferli? Er eðlilegt að missa nokkrum sinnum áður en það svo tekst? Gæti verið að það sé eitthvað að hjá mér fyrst ég er ekki ennþá orðið ólétt og það tekist? Hvað er eðlilegt að það líði langur tími frá fósturláti og að næstu þungun?

Kærar kveðjur,ein í óvissu.


Sæl og blessuð!

Það er talið að 15% af staðfestum þungunum endi með fósturláti en þau eru algengari hjá konum sem eru ófrískar í fyrsta sinn. Samkvæmt þinni lýsingu get ég ekki betur séð en að þú hafir misst fóstur þrisvar sinnum. Yfirleitt er mælt með rannsóknum til að kanna mögulegar ástæður þegar um að ræða 3 fósturlát eða fleiri í röð. Þó er rétt að taka það fram að orsök finnst aðeins í um 25-50% tilfella og því er orsök ókunn í 50-75%tilfella.

Kannski er það huggun að vita að yfir 80% kvenna sem missa fóstur munu ganga með og ala lifandi barn í næstu meðgöngu. Ef það hafa hins vegar orðið þrjú fósturlát í röð þá eru líkurnar samt sem áður 75%.

Ég held að það væri rétt að þið leituðuð til fæðinga- og kvensjúkdómalæknis til þess að fara yfir þessi mál og hugsanlega verða gerðar einhverjar rannsóknir.

Ég vona að þessar upplýsingar komi að gagni og að ykkur gangi vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
13. desember 2008.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.