Spurt og svarað

30. júlí 2013

Sárir samdrættir við hreyfingu

Sælar
Ég er komin 23 vikur á leið með annað barn og hef fundið fyrir mjög tíðum en verkjalausum samdráttum sl. 2 mánuði, hvort sem er í hvíld eða á hreyfingu. En undanfarna viku hefur komið verkur í legið neðanvert alveg frá hægri til vinstri við það að ég geng mjög stutta vegalengd mjög hægt. Þess má geta að ég er í sumarfríi og því er ekkert álag á mér. Þannig að það virðist sem ég hreinlega megi alls ekki ganga neitt, sem gengur jú ekki upp þegar maður er líka með einn tveggja ára. Ég talaði við ljósmóður en hún sagði konur bara vera svona stundum og erfitt að vita af hverju og bauð mér að koma með þvagprufu og láta þreifa á leghálsinum til að athuga hvort hann væri eitthvað að breytast. Hún segir ekkert meira vera gert svona snemma á meðgöngu en er þetta ekki einmitt svo slæmt svona snemma á meðgöngunni? Ég er voðalega smeyk við þetta.
Sæl, takk fyrir að leita til okkar
Samdrættir eru algengt umkvörtunarefni á meðgöngu, sérstaklega eftir að konur hafa átt eitt til tvö börn. Mildir, verkjalausir óreglulegir samdrættir eru eðlilegir á öllum tímabilum meðgöngu en oft er erfitt að greina eðlilega samdrætti frá byrjandi fæðingu. Til að samdrættir hafi áhrif til að stytta leghálsinn þurfa þeir að vera reglulegir, og viðvarandi. Samdrættir sem fara við hvíld eru oftast saklausir. Oftast er talað um að það sé í lagi að fá 4 samdrætti með verkjum á 60 mínútum en þeir eiga ekki að vera viðvarandi.
Algeng orsök samdrátta á meðgöngu er þvagfærasýking eða sýking í leggöngum, það væri því gott fyrir þig að fara í skoðun til ljósmóður og skila þvagprufu. Einnig getur verið ganglegt að taka strok úr leggöngum og þreifa leghálsinn til að sjá hvort hann sé að styttast. Einnig hefur verið sýnt fram á að reykingar geti valdið samdráttum.
Gangi þér vel.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
30. júlí 2013.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.