Sárir verkir og sviði í brjóstum

21.02.2007

Hæ, hæ.

Ég er gengin rúmar 16 vikur með mitt fyrsta barn og undanfarna daga hef ég verið að fá rosalegan kláða í geirvörturnar svo þegar ég vakna í morgun þá eru geirvörturnar og brjóstin alveg hræðilega aum. Ég er með þennan stanslausa verk í geirunum, í kring og undir. Mér líður eins og prjóni hafi verið stungið inní vörtuna og svo hrært með honum og þessi sári verkur ætlar ekkert að hætta og í bland við þetta er sviðatilfinning. Ég hef ekkert verið aum í brjóstunum hingað til og hef ég heldur aldrei verið viðkvæm í þeim, alla vega ekki geirvörtunum. Hvað getur þetta verið og er eitthvað hægt að gera við þessu? Heldurðu að kaldir eða heitir bakstrar gætu virkað eitthvað? Gæti brjóstagjöf gengið illa útaf einhverju svona?

Takk fyrir frábæran vef og von um skjót svör.

Kveðja, ein sárþjáð!


Sæl og blessuð!

Það sem þú lýsir gæti verið byrjun á sveppasýkingu. Ég ráðlegg þér að leita til brjóstagjafaráðgjafa, ljósmóður eða læknis og fá skoðun og meðferð. Ef þetta er sveppasýking þá ætti hún ekki að hafa áhrif á brjóstagjöfina en auðvitað er mikilvægt að fá rétta greiningu og meðferð.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
21. febrúar 2007.