Sársauki við kynlíf

19.05.2013
Sælar.
Ég er komin 22 vikur, 27 ára og geng með barn nr.2 og er með pínu vandræðalega spurningu sem ég fæ mig ekki til að spyrja ljósuna þegar ég er í skoðun. Ég upplifi sársauka við kynlíf, eins og það sé mótstaða innst, þ.e. eins og það sé bara allt mikið grynnra. Ekki í leggöngunum heldur er eins og það þrýstist upp í legið. Maðurinn minn er reyndar með svolítið mikið "yfir meðallagi" en það hefur ekki verið vandamál hingað til nema þá stundum í kringum blæðingar en ekkert í líkingu við þetta, þá gat það verið pínu óþægilegt en núna er það bara virkilega vont. Reynum að notast við stellingar sem ég get stjórnað hversu langt hann fer inn en það er samt vont (þótt hann sé að passa sig) en þetta skemmir rosalega fyrir og við náum hvorugt að njóta kynlífsins :( Nú er þetta búið að vera alveg síðan ca. á viku 15 (þegar ég var loksins að losna við ógleðina og gat farið að huga að þessu aftur). Er þetta eðlilegt eða ætti ég að láta skoða þetta eitthvað?
Með kærri kveðju.
Sæl og blessuð og takk fyrir fyrirspurnina.
Frábært hjá þér að leita svara við þessu.  Þú átt ekki að skammast þín fyrir þessa spurningu, enda kynlíf mikilvægur hlekkur í samböndum.
Á meðgöngu verða ákveðnar breytingar í líkamanum sem gerir það að verkum að t.d. sveppasýkingar í leggöngum eru algengari og þurrkur í leggöngum og þetta tvennt getur haft áhrif á kynlífið.  Hinsvegar hljómar þetta frekar eins og verkir frá leghálsi. Leghálsinn verður blóðríkari og viðkvæmari á meðgöngu sem gæti útskýrt þessa verki við kynlíf.  Ég myndi ræða þetta við ljósmóðurina þína eða lækni í mæðravernd til að ganga úr skugga um að þetta sé ekkert annað sem er að hrjá þig.


Bestu kveðjur og gangi þér vel.
Arndís Pétursdóttir ljósmóðir
19. maí 2013