Spurt og svarað

09. maí 2007

Að virkja feður

Halló, ég geng með annað barnið mitt og á fyrir tvær fósturdætur sem eru

Tvíburar.  Þegar ég gekk með fyrra barnið og núna finnst mér faðirinn ekkert spenntur yfir þessu öllu saman allavega ekki eins og mér sem tek eftir hverju smáatriði og vidi að hann myndi vera virkari. Honum finnst t.d. bara allt í lagi að nota allt gamalt frá fyrri börnunum sínum.  Þetta er særandi því þegar fyrstu börnin hans fæddust þá var nú allt annað upp á teningnum hjá honum hann hélt ekki vatni yfir þessu og var mjög umhyggjusamur en núna fæ ég bara að heyra "ÞESSAR KONUR ALLTAF KVARTANDI".  Þetta er nú samt allt áhveðið í sameiningu að búa til þessi börn, og hann var spenntur fyrir þvi en samt ekki eins og fyrstu tvö.  Ég er að verða búin með meðgöngu númer 2, á mánuð eftir, og orðin frekar þreytt en enginn minnist á þetta barn hvorki faðir eða systkini. Mér er farið að kvíða fyrir því mér líður eins og þetta barn sé bara orðið fyrir. HVERNIG GET ÉG VIRKJAÐ TILFINNINGAR  FÖÐURINS? Eða er bara eðlilegt að þær dofni bara og verði hversdagslegar með hverju barni? Með von um svar

ALVEG OFBOÐSLEGA EINMANNA BUMBUBÚI.


 

Komdu sæl.

Það er leiðinlegt að heyra hvað þér líður illa og að faðirinn taki ekki virkan þátt í meðgöngunni eins og þú óskar.  Konur og karlmenn hugsa með ólíkum hætti um meðgönguna.  Meðan konur eru uppteknar af öllum þeim breytingum og hreyfingum sem eiga sér stað í líkama þeirra eru karlmenn frekar að hugsa um stækkandi fjölskyldu og ábyrgð sína á því að afla henni farborða.  Konur finna bókstaflega fyrir hverri breytingu en karlar fá bara að heyra um þær þannig að upplifunin getur aldrei orðið eins og þar með spenningurinn kannski ekki heldur.  Pabbar tengjast heldur ekki barninu í móðurkviði eins sterkt og mömmur því þeir bera ekki barnið 24 tíma á sólarhring.  Þeir geta jú fundið hreyfingar en eðli málsins samkvæmt ekki eins mikið og á allt annan hátt en mömmurnar.  

Hinsvegar er það þannig hjá körlum og konum líka að fyrsta meðganga er alltaf sú sem er mest spennandi.  Maður hefur ekki gengið í gegnum þetta áður, allt er nýtt fyrir manni o.s.frv.  Það þýðir samt ekki að maður geti ekki verið spenntur á seinni meðgöngum heldur kemur það kannski aðeins öðruvísi fram.  Það er ekki fylgst eins nákvæmlega með öllum smáatriðum og eins og þú bendir á er þetta aðeins hversdagslegra en í fyrstu.  Þetta á við um karlmenn en líka margar konur.

Allir eiga það líka til að fegra minningar, maður man eftir hlutum svolítið eins og maður vill muna þá, þannig að sögur um það hvernig hann var þegar hann átti tvíburana eru kannski ekki alveg áreiðanlegar og ég mundi reyna að hætta að bera þessa meðgöngu saman við þá fyrstu.  Engin meðganga er eins og þið ættuð að einbeita ykkur að þessari meðgöngu frekar en að vera alltaf í einhverjum samanburði við það sem var.  Horfa fram á við.  Ef mikil spenna er á milli ykkar getur það líka ýkt þau viðbrögð hans að vera fjarlægur og ýkt óskir þínar um að hann taki þátt og þannig gert hlutina verri en þeir þurfa að vera.  Ég ráðlegg ykkur að setjast niður í rólegheitum og ræða málin.  Segið hvort öðru frá því hvernig ykkur líður, væntingum, óskum, áhyggjum og síðast en ekki síst hvað gleður ykkur í fari hvors annars og athugið hvort þið getið ekki notið  þess sem eftir er af meðgöngunni og barnsins þegar það kemur.

 

Gangi ykkur vel

 

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
9. apríl 2007. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.