Sársauki við spangarnudd

15.11.2010

Halló!

Ég hef verið að reyna spangarnuddið. Er eðlilegt að finna alveg rosalega mikið til við þetta nudd? Ég gefst upp og get ekki meira eftir fyrstu fimm mínúturnar og er þá komin í svitakóf af sársauka. Ég er búin að skoða þetta fram og aftur og er viss um að ég sé ekki að gera þetta vitlaust og er alls ekki of harðhent, en fæ alltaf óbærilegan sársauka í spöngina um leið.Takk annars fyrir frábæra síðu sem er búin að svara ótalmörgu fyrir mig.

Kveðja.


Halló!

Ég sendi ykkur fyrirspurn fyrir helgi um sársaukann við þetta spangarnudd, en ég fékk svo blað þar sem ég er í foreldrafræðslu (bý erlendis) og þar var mælt með öðrum stellingum við nuddið, ég er með risastóra bumbu og var engan veginn að ná að teygja hendurnar niður fyrir og slaka á í fyrstu, hvað þá að anda vel á meðan, en á þessu blaði var mælt með að prufa að standa og halla sér fram upp að vegg og ég gerði það og set hendina aftanfrá með vísi og löngutöng og geri nuddið þannig, bæði get ég andað betur og á meðan ég er að kynnast svæðinu er þetta sniðugt, svo gat ég áðan gert seinni fimm mínúturnar sitjandi og með þumlunum því ég er búin að komast að því hvað það er í raun og veru sem ég á að vera að gera. Sársaukinn minnkar líka með hverju skiptinu (sem er kannski tilgangurinn með þessu öllu saman) og sérstaklega við það að geta andað rétt og slakað á á meðan, og sé ég fram á að þetta fari bara að verða notalegt eftir nokkra daga.

Takk aftur.:)Gaman þegar fyrirspurnirnar svara sér bara sjálfkrafa. Takk fyrir fyrirspurnina - og svarið.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
15. nóvember 2010.