Sefur fast

04.09.2009

 Sælar fróðu ljósmæður.

Ég er komin 32 vikur á leið og ég er farin að hafa áhyggjur af því hvað ég sef fast. Ég vakna á nóttunni til að fara á salerni og einstaka sinnum að drekka og narta en þegar ég sef þá sef ég óskaplega fast og rumska ekki. Ég legg mig stundum á daginn í klukkutíma og sef mjög fast á þeim tíma, er úthvíld eftir það.  Ég óttast að ég muni sofa of fast eftir að barnið fæðist, að ég
muni ekki vakna nema það gráti hátt. Ég vil helst geta sofið laust og þá vakna við hvert tíst í barninu, en kannski breytist þetta eftir að barnið fæðist?  Er ástæða til að hafa áhyggjur? Ég er alltaf að heyra um það að konur eigi erfitt með að sofa síðustu vikurnar en það er ekki vandamál hjá mér. Er þetta eðlilegt? 


 
Komdu sæl

Það er bara frábært að þú skulir sofa svona vel og hvílast vel.  Þú þarft engar áhyggjur að hafa af þessu, þegar þú þarft að fara að vakna til barnsins verður það ekkert vandamál, bæði hefur barnið ráð til að vekja þig og eftir að barnið er fætt er ósennilegt að þú sofir svo fast að þú vaknir ekki við það.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
4. september 2009
.