Segulómskoðun á 4-7 viku meðgöngu

10.06.2013
Góðan dag.
Nú vefjast málin fyrir mér þar sem ég hef verið boðuð í ómskoðun á mjóbaki eftir nokkrar vikur. En á sama tíma ef að allt gengur að óskum verð ég komin um 4 - 7 vikur á leið þegar segulómunin á að fara fram. Er ekki öruggast að fresta viðkomandi skoðun?
Sæl
Myndrannsóknir eins og röntgen, tölvusneiðmynd og segulómskoðun eru dæmi um rannsóknir sem valda geislun. Fáar rannsóknir eru til um öryggi og/eða skaðsemi geislunar á meðgöngu. Þær rannsóknir sem til eru, eru byggðar á reynslu t.d. ef kona hefur farið í myndatöku eða orðið fyrir geislun á meðgöngu og ekki vitað af þunguninni. Engar rannsóknir hafa sýnt fram á skaða af völdum segulómunar á meðgöngu, en þar sem vefir líkamans geta hitnað töluvert við myndatökuna er mælt með því að forðast slíka myndatöku á fyrsta þriðjungi meðgöngu.
Þegar konur fara í myndrannsóknir á meðgöngu þarf alltaf að vega og meta áhættu og ávinning þess að gera rannsóknina. Ávinningur fyrir heilsu konunnar þarf alltaf að vera meiri en áhætta fyrir fóstrið.
Ég ráðlegg þér eindregið að ræða þetta mál við þann lækni sem sendi þig í myndatökuna, líklega er best að fresta rannsókninni.
Gangi þér vel.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
10. júní 2013