Að þyngjast ekki og mæðraskoðun

05.03.2008

Hæ hæ. Takk fyrir frábæran vef, og ég er viss um að þetta léttir mikið vinnu af þeim sem vinna í mæðraverndinni, það er hægt að finna svör við öllu hérna. :)

Mig langaði að spyrja um hvernig getur eiginlega staðið á því ef maður þyngist bara ekkert. Ég er komin næstum tuttugu vikur, var við efstu mörk kjörþyngdar, og hef ekkert þyngst, þrátt fyrir að matarlystin sé mjög góð, ég verð svöng á 2 tíma fresti og finnst ég vera að borða frá morgni til kvölds. Samt hef ég verið að hreyfa mig minna (vegna ytri aðstæðna). Getur verið að ég sé að brenna svona miklu meira bara vegna meðgöngunnar? Þar sem maginn og brjóstin eru búin að stækka heilmikið hlýtur þetta að þýða að ég sé að tapa fituforða einhversstaðar, er það slæmt fyrir barnið að það sé að fá hluta af næringunni sinni þannig?

Önnur spurning: ég veit að flestum finnst alltof langt á milli mæðraskoðana í viku 16 og viku 24. Sónarskoðun við viku 20 er jú allt annað.  Hefur ekkert verið rætt að bæta inn einni skoðun þarna?


Komdu sæl.

Æskilegt er fyrir konur í kjörþyngd að þyngjast á meðgöngunni um 12 - 18 kg.  Vissulega getur verið misjafnt hvenær þessi kíló koma og kannski áttu eftir að taka við þér.  Það er hinsvegar ekki hættulegt ef þú ert með aukaforða að þyngjast ekki fyrst eða þyngjast minna en þessi kíló segja til um.  Aðalatriðið er að borða hollan og fjölbreyttan mat.  Stundum verða breytingar á mataræði til þess að þyngdaraukning verður ekki eins mikil, t.d. þegar konur taka upp hollara mataræði en þær höfðu verið á áður og þá er það bara eðlilegur fylgifiskur þeirra breytinga að þyngjast ekki eða jafnvel léttast eitthvað.  Í mæðraverndinni er svo fylgst með vexti legsins og barnsins og brugðist við ef þarf.

Í sambandi við skoðanir í mæðravernd voru leiðbeiningar um skoðanir endurskoðaðar hjá landlækni í fyrra og skoðunum eitthvað fækkað bæði hjá frumbyrjum og fjölbyrjum sem ekki koma í skoðun fyrr en við 28. viku ef allt er eðlilegt (eftir 16 vikna skoðunina).  Reyndar á eftir að samþykkja þessar breytingar endanlega og því mögulegt að þessu verði eitthvað breytt aftur.  Hinsvegar er þetta alltaf matsatriði með hverja og eina konu hversu oft hún þarf að koma og fer það eftir því hvort allt er eðlilegt eða einhver frávik.  Það er líka alltaf möguleiki að hringja í ljósmóðurina sína í mæðraverndinni og tala við hana eða fá aukatíma ef eitthvað kemur uppá milli skoðana.

Bestu kveðjur

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
5. mars 2008.