Selen með E-vítamíni

08.05.2007

Hæ, hæ og takk fyrir frábæran vef!

Langaði að forvitnast um hvort það væri ekki í lagi að taka inn Selen með E vítamíni inn? Er komin 16.vikur á leið. Er að taka inn C-vítamín og fólinsýru.

Kveðja, Októberbumba:)

 


 

Sæl og blessuð!

Fólínsýra er eina vítamínið sem mælt er með að allar barnshafandi konur taki fyrstu 3 mánuði meðgöngunnar og helst í 1 mánuð fyrir getnað líka, 400 µg á dag. Kona sem borðar fjölbreytta fæðu ætti ekki að þurfa önnur vítamín nema ef til vill járn ef mælingar á blóðrauða reynast lágar. Ef hins vegar einhverja fæðuflokka vantar í daglega neyslu þarf að skoða það sérstaklega og bæta það þá upp með vítamíntöflum.  Í könnun Manneldisráðs á mataræði árið 2002 kom fram að neysla fæðu sem inniheldur D-vítamín var ófullnægjandi hjá flestum aldurshópum. Í ljósi þess og að við búum á norðlægðum slóðum þar sem litið er um sólarljós er líklegt að flestar barnshafandi konur þurfi að taka inn D-vítamín. Það má t.d. fá með því að taka inn lýsi eða lýsisperlur. Það er því ýmislegt sem bendir til þess að það sé gott að taka lýsi á meðgöngu. Ef tekið er inn lýsi er mikilvægt að taka það í hæfilegum skömmtum og alls ekki of mikið til forðast ofneyslu A og D vítamína. Hæfilegur skammtur er 1 teskeið af þorskalýsi eða Krakkalýsi á dag.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Lýðheilsustöðvar er ráðlagður dagskammtur af seleni er 40 míkrógrömm fyrir konur. Þar segir enn fremur að ekki sé æskilegt að taka meira en 300 míkrógrömm á dag, þar sem stórir skammtar af seleni geta valdið eitrun og að neysla á seleni sé almennt rífleg hér á landi en fiskur, kornmatur, mjólk og egg veita mest af seleni í fæðu Íslendinga.

Varðandi E- og C-vítamín. Ráðlagður dagskammtur fyrir konur á meðgöngu er 10 α-tókóferoljafngildi af E-vítamíni og 85 mg. af C-vítamíni.

Nú þarft þú að skoða fæðuneyslu þína og spyrja sjálfa þig að því hvort þörf sé á þessum bætiefnum sem þú ert að taka inn og hafa í huga að ekki er mælt með því að taka inn vítamín í stærri skömmtun en ráðlagðir dagskammtar segja, sérstaklega ekki á meðgöngu.

Vona að svarið hjálpi.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
8. maí 2007.