Spurt og svarað

08. maí 2007

Selen með E-vítamíni

Hæ, hæ og takk fyrir frábæran vef!

Langaði að forvitnast um hvort það væri ekki í lagi að taka inn Selen með E vítamíni inn? Er komin 16.vikur á leið. Er að taka inn C-vítamín og fólinsýru.

Kveðja, Októberbumba:)

 


 

Sæl og blessuð!

Fólínsýra er eina vítamínið sem mælt er með að allar barnshafandi konur taki fyrstu 3 mánuði meðgöngunnar og helst í 1 mánuð fyrir getnað líka, 400 µg á dag. Kona sem borðar fjölbreytta fæðu ætti ekki að þurfa önnur vítamín nema ef til vill járn ef mælingar á blóðrauða reynast lágar. Ef hins vegar einhverja fæðuflokka vantar í daglega neyslu þarf að skoða það sérstaklega og bæta það þá upp með vítamíntöflum.  Í könnun Manneldisráðs á mataræði árið 2002 kom fram að neysla fæðu sem inniheldur D-vítamín var ófullnægjandi hjá flestum aldurshópum. Í ljósi þess og að við búum á norðlægðum slóðum þar sem litið er um sólarljós er líklegt að flestar barnshafandi konur þurfi að taka inn D-vítamín. Það má t.d. fá með því að taka inn lýsi eða lýsisperlur. Það er því ýmislegt sem bendir til þess að það sé gott að taka lýsi á meðgöngu. Ef tekið er inn lýsi er mikilvægt að taka það í hæfilegum skömmtum og alls ekki of mikið til forðast ofneyslu A og D vítamína. Hæfilegur skammtur er 1 teskeið af þorskalýsi eða Krakkalýsi á dag.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Lýðheilsustöðvar er ráðlagður dagskammtur af seleni er 40 míkrógrömm fyrir konur. Þar segir enn fremur að ekki sé æskilegt að taka meira en 300 míkrógrömm á dag, þar sem stórir skammtar af seleni geta valdið eitrun og að neysla á seleni sé almennt rífleg hér á landi en fiskur, kornmatur, mjólk og egg veita mest af seleni í fæðu Íslendinga.

Varðandi E- og C-vítamín. Ráðlagður dagskammtur fyrir konur á meðgöngu er 10 α-tókóferoljafngildi af E-vítamíni og 85 mg. af C-vítamíni.

Nú þarft þú að skoða fæðuneyslu þína og spyrja sjálfa þig að því hvort þörf sé á þessum bætiefnum sem þú ert að taka inn og hafa í huga að ekki er mælt með því að taka inn vítamín í stærri skömmtun en ráðlagðir dagskammtar segja, sérstaklega ekki á meðgöngu.

Vona að svarið hjálpi.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
8. maí 2007.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.