Senokot (Senna)

22.03.2007

Hæ, hæ og takk fyrir frábæran vef!

Var að lesa fyrirspurn um Rauðrófusafa og þar var talað um Senna. Mér brá frekar mikið þegar ég las að Senna gæti valdið samdráttum í legi og að óléttar konur ættu ekki að neyta þess. Ég hef það vandamál að hafa króníska hægðatregðu og eftir að ég varð ólétt varð þetta enn verra (er komin 19 vikur í dag). Ég hef gert allt sem ég get til að reyna að sleppa því að taka Senokot en hef gert það einstaka sinnum þegar ég hef orðið alveg frá. Stundum virkar það ekki einu sinni á mig. Ég verð svo slæm af hægðatregðunni. Meltingasérfræðingurinn minn sagði að það væri í lagi, á www.lyfja.is er sagt að það sé óhætt og einnig í lyfjaskránni. Er ég að gera eitthvað sem ég má ekki?

Með fyrirfram þökk. Ein áhyggjufull ;/

 


Sæl og blessuð og takk fyrir að senda okkur þessa fyrirspurn.

Þú ert ekki að gera neitt sem þú ekki mátt. Senokot er lyfseðilsskylt lyf sem ætti því eingöngu að nota í samráði við lækni, eins og þú hefur gert. Samkvæmt Sérlyfjaskránni er alveg öruggt að nota lyfið Senokot sem inniheldur Senna á meðgöngu og þegar verið er með barn á brjósti. Lyfið er ekki talið vera fósturskemmandi. Þessar ályktanir eru dregnar út frá langtíma notkun lyfsins án teljandi vandamála. Skammtastærðir eru þekktar og lyfið er talið öruggt miðað við þær skammtastærðir sem notaðar hafa verið og læknar ráðleggja. Á vefnum www.safefetus.com er fjallað um öryggi lyfja á meðgöngu og við brjóstagjöf. Þar er fjallað um lyfið Pursennid sem inniheldur Senna og þar segir að rannsóknir á dýrum hafi ekki leitt í ljós fósturskemmandi áhrif en að ekki hafi verið gerðar nægjanlega góðar rannsóknir á konum sem taka lyfið.

Burtséð frá öllum rannsóknum þá getur Senna fræðilega séð valdið samdráttum í legi sem geta haft óæskileg áhrif.

Þær upplýsingar sem ég finn um Senna eru dálítið misvísandi og því erfitt að gefa afdráttarlaust svar. Á vefnum www.kellymom.com segir t.d. að Senna getið valdið niðurgangi hjá brjóstabarni ef móðir þess notar það, sumir tala um að ekki ætti að nota Senna á fyrsta þriðjungi og aðrir tala um að það ætti ekki að nota það á þriðja þriðjungi vegna þess að það geti valdið samdráttum. Ég er þeirrar skoðunar að ef vafi leikur á öryggi jurtanotkunar á meðgöngu, þá sé betra að varast notkun.

Það er þó eitt sem menn og konur virðast sammála um og það er það að langtímanotkun Senna sé mjög óæskileg og að Senna eigi alltaf að nota í samráði við lækni.

Vona að þessi umfjöllun skýri málið betur.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22.mars 2007.