Spurt og svarað

18. desember 2006

Sérfræðingar í tvíburameðgöngu

Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Ég var að velta því fyrir mér hvort þið vitið um einhverja ráðgjafa, lækna eða ljósmæður sem hafa sérhæft sig í tvíburameðgöngu. Alls staðar sem ég hef lesið kemur fram að tvíburameðganga sé öðru vísi en ef um eitt sé að ræða. Þegar ég ræddi t.a.m. við ljósuna mína um matarræði var mér ekki ráðlagt neitt sérstakt en samkvæmt bókinni sem ég er að lesa er talað um að tvíburamæður eigi að borða 3.500 hitaeiningar á dag, 20% kolvetni, 40% prótein og 40% fitu og að þær eigi að þyngjast duglega fyrir 24 vikur eða um 12 kíló vegna þess hve oft tvíburar eru fyrirburar og erfitt er fyrir tvíburamæður að borða nægilega seinna meir vegna stórs legs. Ég hef svolitlar áhyggjur af því að ekki sé gert meira úr þessu hér og að manni sé ekki sjálfkrafa bent á aðila sem hafa sérhæft sig. Eru kannski engir? 12 vikna sónarinn kom mjög vel út og eru tvíburarnir í sitt hvorum sekknum með sitt hvora fylgjuna, ekki er þó vitað hvort þeir séu eineggja eða tvíeggja ennþá (þar sem eineggja geta verið í sitt hvorum sekknum með sitt hvoru fylgjuna einnig). Þetta er nú talin besta tvíburameðgangan þegar allt er sér en auðvitað er maður smeykur.

Takk fyrir, áhyggjufull verðandi tvíburamamma.

 


 

Sæl og blessuð og til hamingju með það að eiga von á tvíburum!

Þetta er rétt sem þú segir með næringu tvíburamæðra - þær þurfa að þyngjast meira og vanda fæðuvalið snemma á meðgöngu miðað við einburamæður. Það spilar líka inn í dæmið hversu þung móðirin er við getnað - reikna þarf út líkamsþyngdarstuðul móðurinnar og veita svo ráðleggingar í samræmi við það. Eins og þú segir með tilliti til að börnin geta fæðst fyrir tímann. Flestar ljósmæður vita það helsta varðandi tvíburaþunganir og fæðingar tvíbura. En ég hef sérhæft mig á þessu sviði og síðan er mæðravernd fyrir áhættumeðgöngur á Kvennadeild Landspítala (á 1. hæð), þar eru starfandi fæðingarlæknar og einnig úti á heilsugæslustöðvunum. Það er gott að lesa bækur sem eru um tvíburameðgöngu vegna þess að í flestum þeirra kemur fram hvað er sérstakt við tvíbura og fjölburameðgöngur.

Með bestu kveðju og gangi þér vel,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir,
18. desember 2006.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.