Spurt og svarað

24. janúar 2007

Sitjandi staða á 33. viku

Í fyrstu meðgöngunni minni snéri barnið sér tiltölulega snemma í höfuðstöðu en skoraði sig ekki niður í grindina fyrr en í fæðingunni. Núna á ég aftur von á barni sem er ekki enn komið í höfuðstöðu en er komin á 33. viku. Á þessum tíma var fyrsta barnið mitt búið að snúa sér. Ég er búin að leita í fyrirspurnarkaflanum ykkar en sé ekki svar sem passar nægjanlega vel við mína fyrirspurn. Er algengt að fyrsta barn snúi sér fyrr í höfuðstöðuna heldur en næstu börn?  Þarf ég að hafa áhyggjur af því að þetta barn snúi sér e.t.v. ekki neitt.  Hefur það nokkur áhrif á það hvort þetta barn snúi sér að fyrsta barnið mitt skorðaði sig aldrei ofan í grindina? Og að lokum, eru einhver tiltæk ráð (annað en að skríða á fjórum fótum) til að hvetja barnið til að snúa sér?  Ég hef heyrt að leggja poka af frosnum baunum á bumbuna þar sem hausinn er, en mér finnst það hálf harkalegt.

Kveðja, mamman.

 


 

Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Það er ekkert óeðlilegt við það að barnið sé enn í sitjandi stöðu og ekki búið að skorða sig. Ef fyrsta barnið þitt hefur ekki skorðað sig fyrr en í fæðingunni þá er ólíklegt að þetta barni geri það fyrir fæðingu. Það er enn nægur tími til stefnu fyrir barnið að snúa sér. Talið er að um 57% barna í sitjandi stöðu við 32 vikur snúi sér sjálfkrafa í höfuðstöðu. Ef barn er enn í sitjandi stöðu við 37 vikur er oft reynd vending ef ekkert mælir gegn því.

Það eru til ýmis ráð til að fá barn til að snúa sér. Í bók sem ljósmóðirin Ina May Gaskin skrifaði árið 1990 kemur fram að rannsókn ein hafi sýnt að 89% barna í sitjandi stöðu hafi snúið sér í höfuðstöðu við það að móðirin lá í ákveðinni stöðu  í 10 mínútur, tvisvar á dag, eftir 8. mánuð meðgöngu. Þessi staða er þannig að móðirin liggur á bakinu, með hné beygð, iljar í gólfi og fullt af púðum undir rassinum, þannig að móðirin liggur með höfuðið neðar en rassinn.  Þú getur prófað þetta!

Svo er til aðferð sem kallast „Moxibustion“, en það er gömul kínversk aðferð sem ef til vill getur stuðlað að snúningi barns úr sitjandi stöðu í höfuðstöðu. Þegar „Moxibustion“ meðferðin er notuð er kveikt í nokkurs konar vindlum eða reykelsum úr plöntunni Aremisia vulgaris (moxa). Vindlunum er síðan haldið nálægt ytri brún tánagla litlu táar. Með því að örva þennan punkt með hitanum sem myndast er verið að ýta undir hreyfingar barns í móðurkviði. Ég veit ekki hvort þetta er gert hér á landi en ef einhver býður upp á slíka meðferð þá væri það helst Guðlaug sem rekur fyrirtækið 9mánuðir.

Ég þekki ekki baunaaðferðina.

Hér á vefnum er nýleg fyrirspurn um sitjandi fæðingar sem þú getur kynnt þér ef þörf krefur.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. janúar 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.