Spurt og svarað

28. apríl 2008

Aðgerð við gyllinæð

Hæ, hæ og takk fyrir góðan vef!

Ég er að velta fyrir mér einu í sambandi við gyllinæð.  Ég er komin 9 vikur á minni fyrstu meðgöngu.  ég er með gyllinæð sem ég hef haft í um tvö ár, hef leitað til læknis sem sagði hana vera minniháttar en vildi samt fjarlægja með smávegis aðgerð, sem þyrfti svæfingu, hef síðan ekki haft tíma. Gyllinæðin hefur ekki háð mér fyrr en nú í tengslum við hægðir sem eru aðeins erfiðari en vanalega.  Ég er sem sagt að velta því fyrri mér hvort maður eigi að láta laga þetta (það er að segja er það óhætt)  þar sem ég reikna með því að gyllinæðin aukist frekar en eitthvað annað þegar líður á meðgönguna (þetta er nefnilega lítil tota sem „gægist“ út um endaþarmsopið).  Ekki skemmtilegar lýsingar, en uppá sjálfmyndina að gera, ímynda ég mér að það væri ekki það besta í heimi að vera orðin kasólétt og með mikla sýnilega gyllinæð.

Kveðja, fr. vangavelta.


Sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Það er mikilvægt fyrir þig að halda hægðunum mjúkum og reglulegum með mataræði og nægri vökvainntekt. Það gæti hjálpað þér við að halda gyllinæðinni í skefjum og minnkað óþægindin sem af henni stafa. Til eru ýmis ráð við gyllinæð en algengast er að nota krem til að bera á svæðið, stundum ásamt endaþarmsstílum (suppositorier). Það gæti einnig verið mýkra að nota blautþurrkur til að þurrka með eftir hægðalosun en venjulegan klósettpappír. Kaldur bakstur eða ísbakstur (dömubindi bleytt og fryst) settur á svæðið í 10-20 mínútur gæti einnig linað óþægindin. Nálarstungur hafa einnig verið notaðar. Gyllinæð lagast oft af sjálfu sér eftir fæðingu en getur það tekið mislangan tíma. Ef það gerist ekki af sjálfu sér þarf oft að fjarlægja gyllinæðina með aðgerð.  Ég myndi ráðleggja þér að prófa eitthvað af framangreindum ráðum og sjá hvort eitthvert þeirra hjálpar ekki.  Ef ekki ráðlegg ég þér að ræða um það við ljósmóðurina sem þú ert hjá í mæðravernd.

Ég bendi þér að skoða fleiri svör um gyllinæð hér á síðunni.

Ég vona að þetta svari spurningu þinni.  Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Þórdís Björg Kristjánsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. apríl 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.