Spurt og svarað

11. mars 2015

Sjálfsskoðun

Sælar.  Ég er gengin 36 vikur með annað barn. Hef verið með ansi mikla samdrætti ásamt fyrirvaraverkjum síðustu vikur og finnst ég finna greinilega að barnið þrýstir vel í grindina (í síðustu skoðun var barnið lausskorðað).  Það er kannski óæskilegt, en ég ákvað að þreifa upp í leggöngin til að athuga hvort leghálsinn væri opnari og hef nú þrjár spurningar: 1. Leghálsinn var opnari en venjulega. Ég hef þó ekki orðið vör við að slímtappinn fari eða að legvatn leki. Ég hef lesið að það geti tekið langan tíma fyrir leghálsinn að opnast - jafnvel vikur - en vil spyrja til öryggis hvort það sé ekki örugglega svo? Ég þarf ekkert að drífa mig á fæðingardeildina ef hríðarnar eru ekki byrjaðar? 2. Mér fannst ég finna fyrir höfðinu. Innan frá (tek fram að ég fór þó ekki inn í leghálsinn). Getur það verið? 3. Getur það verið skaðlegt að gera slíkar sjálfskoðanir? Kveðja, mamma

 
Heil og sæl mamma, ég vil segja það fyrst að það þarf nokkra æfingu til að skoða leghálsinn og meta hvað er að gerast þar. Leghálsinn getur auðveldlegast breyst og opnast án þess að legvatn fari að leka eða að þú verðir vör við slímtappa. Það er rétt að breytingar og opnun á leghálsi geta tekið nokkurn tíma og eru ekki endilega neitt merki um að fæðing sé að bresta á svo að það er ekki ástæða til að fara á fæðingadeildina. Það er nægur tími að fara á fæðingadeildina þegar hríðar eru byrjaðar. Nei þú finnur ekki beint fyrir höfðinu nema að fara í gegnum leghálsinn. Það er ekki skaðlegt að gera sjálfsskoðun en ég mæli ekkert sérstaklega með því – eins og ég sagði áðan þarf nokkra þjálfun til að meta það sem maður finnur við skoðunina. Bæði þarf að meta í hvaða átt legháls snýr, hversu mjúkur hann er og hversu langur. Það hversu opinn hann er skiptir vissulega máli en þarf að skoðast með öðrum þáttum.

Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
11. mars 2015
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.