Sjósund á meðgöngu

28.06.2009

Sælar!

Nú er ég þunguð og það í fyrsta sinni og óteljandi spurningar í höfðinu. Ein er hvort það sé óhætt að synda í köldum sjó á meðgöngu. Það er ekki eitthvað sem ég stunda í hverri viku eða mánuði en árlega fer ég á Snæfellsnes og syndi þar í sjónum að sumarlagi. Ég verð komin 18-20 vikur í ágúst þegar ég fer næst. Býst við að lofthiti verði um 12-20 gráður og ég fer eingöngu í sól. Geta svona köld böð skaðað barnið á þessum tíma eða yfir höfuð á meðgöngu.

Með bestu kveðjum, Ósk.


Sæl og blessuð!

Ég á því miður ekki svar við þessari skemmtilegu spurningu en við getum aðeins velt þessu fyrir okkur. Almennt séð er ekkert sem mælir á móti sjóböðum á meðgöngu í þægilegu hitastigi svo framarlega sem sjórinn er sæmilega hreinn. Þegar líkaminn kólnar eins og gerist við bað í köldum sjó þá dragast saman æðarnar í húðinni og útlimunum og blóðflæðinu er beint til kjarna líkamans til að halda sem mestum hita þar þannig að barnið er sennilega vel varið gegn kuldanum svo framarlega sem þér líður vel. Mér dettur ekkert í hug sem gæti verið neikvætt við sjósund á meðgöngu nema þá ef til vill að það auki hættuna á þvagfærasýkingu en mörgum konum er hættara við þvagfærasýkingu þegar þeim verður kalt, hvort sem þær eru barnshafandi eða ekki.

Þegar líkamshitinn lækkar þá verða aukin þvaglát þar sem nýrun skynja þetta aukna blóðflæði sem aukinn vökva í líkamanum en þar sem ekki er um aukinn vökva að ræða - heldur það að vökvanum (blóðinu) er bara beint til mikilvægustu líffæranna þá er mjög mikilvægt að drekka vel eftir sundferð í köldum sjó eða vatni.

Eigum við ekki bara að kalla eftir áliti fleiri aðila á þessu máli? Hvað segið þið reyndu konur og menn sem lesið þetta? Sendið inn fyrirspurn ef þið hafið eitthvað til málanna að leggja.

Sjósundkveðjur,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. júní 2009.