Sjúkraþjálfun og nudd á 1. þriðjungi

19.09.2010

Komið þið sælar kæru ljósmæður og bestu þakkir fyrir góðan og upplýsandi vef!

Ég hef verið lengi í sjúkraþjálfun og nuddi vegna verkja í stoðkerfi. Sú meðferð sem ég hef verið að fá er nudd, nálar, laser og stuttbylgjur. Svæðið sem mest er verið að vinna með er mjóbak, í kringum rófubein, rass og mjaðmir, háls og herðar og fætur. Nú eru fyrirhuguð uppsetning á fósturvísi hjá mér í næstu viku og er ég að velta því fyrir mér hvort ég þurfi að tilkynna sjúkraþjálfaranum strax um mögulega/væntanlega þungun? Ég sá á vefnum ykkar að svo á við ef nálar eru notaðar. Hvað með hinar meðferðirnar. Má ég t.d. fá stuttbylgjur á mjóbakssvæðið á þessum fyrsta hluta meðgöngu? Hvað með nuddið, skiptir þar t.d. olían sem sjúkraþjálfarinn notar máli?


Sæl og blessuð

Það er best fyrir þig að segja sjúkraþjálfaranum frá uppsetningunni svo hægt sé að taka tillit til þess í sjúkraþjálfuninni. Sjúkraþjálfarinn á að vita hvaða meðferðum má beita við þessar aðstæður.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
19. september 2010.