Skemmdur matur

30.01.2013
Góðan daginn og takk fyrir frábæran vef!
Getur skemmdur matur haft áhrif á fóstrið? Ég borðaði í gær eitthvað sem ég fann að var skrýtið bragð af og í dag er ég búin að vera skrýtin í maganum og mikið loft. Er komin 15 vikur á leið og hef smá áhyggjur af þessu. Veit ekki hvað var skemmt hvort það var kálið, fetaosturinn eða avokadóið. Veit bara að ég og maðurinn minn erum svona í dag.
Takk fyrir!
Sæl vertu
Í flestum tilfellum er fóstrið vel varið fyrir matarsýkingum á meðgöngunni. Þó eru einstaka bakteríur sem geta haft áhrif á það. Ég vil benda þér á tvo bæklinga sem gefnir hafa verið út af Matvælastofnun. Annar heitir Matur og meðganga og hinn heitir Varnir gegn matarsýkingum og matareitrunum.
Rétt er að leita til heimilislæknis eða heilsugæslu ef einkenni hverfa ekki fljótlega eða fara versnandi.


Gangi þér vel,
Björg Sigurðardóttir,
ljósmóðir og kennari,
29. janúar 2013.