Skjaldbökur og meðganga

29.11.2006

Við hjónin eigum 2 vatnaskjaldbökur í búri sem bóndinn sér alfarið um. Er hættulegt fyrir mig og ungbörn að vera nálægt þessum dýrum og í hverju fellst hættan?

 


 

Við leituðum til Helgu Finnsdóttur dýralæknis sem sendi okkur þetta svar:

Sæl.

Það er nú svo að innflutningur skjaldbaka hefur verið bannaður í mörg ár - og ekki af ófyrirsynju. Í ljósi innflutningsbannsins má áætla að skjaldbökurnar ykkar hafi verið fluttar ólöglega til landsins - og í því felst töluverð hætta, ekki síst fyrir ungbörn og reyndar einnig fyrir fullorðið fólk. Þú getur lesið um ástæðu innflutningsbannsins á heimasíðu minni www.dyralaeknir.com undir „fréttir“ og síðan fyrirsögninni „Bann við innflutningi á eðlum og skjaldbökum“. Þar skrifar Gísli Jónsson, sérgreinadýralæknir fiskisjúkdóma um ástæður innflutningsbannsins og hættuna sem getur fylgt þessum dýrum. Í ljósi smithættunnar sem kann að stafa af skjaldbökunum ykkar er skynsamlegast að losa sig við þær, með öryggi þitt og barnanna ykkar að leiðarljósi.

Með bestu kveðjum,

Helga Finnsdóttir, dýralæknir
Sérgrein: Sjúkdómar hunda og katta
www.dyralaeknir.com
29. nóvember 2006.

yfirfarið 29.10.2015