Skyndileg vökvasöfnun í fæti

13.05.2008

Kæru ljósmæður.

Það er nú víst aldrei hægt að þakka nóg fyrir þess frábæru síðu sem maður getur leitað til með öll sín vandamál:)

Þannig er nú mál með vexti að ég er ófrísk, komin 25 vikur á leið og alveg  frá því ég var gengin 20 vikur hef ég lent í því að fá einhvers konar skyndileg vökvasöfnun í vinstri fótlegg. Það fylgja ekki beinlínis verkir heldur mikil óþægindi, svona einskonar þrýstingur og fóturinn verður breiður og harður. Þetta hefur komið u.þ.b. 10 sinnum á þessum 5 vikum og líður svo hjá á nokkrum klst. Nú veit ég að það er mikið um æðaslit,æðahnúta og æðatappa í móður fjölskyldunni minni og mig langaði bara að forvitnast hvort þið teljið þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af?

Kær kveðja, Fröken æðavandamál:)


Sæl!

Ekki kann ég útskýringu á þessu fyrirbæri sem þú lýsir og finnst ráðlegt að þú ræðir þetta við lækni. Það er að sjálfsögðu meiri vökvasöfnun í líkamanum á meðgöngu og lýsingin passar við bjúgsöfnun en þar sem þetta kemur og fer við ekkert sérstakt tilefni myndi ég benda þér á að ræða við þinn lækni og ljósmóður í mæðravernd.


Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
13. maí 2008.