Slappleiki á meðgöngu

03.02.2007

Sælar, ég er komin núna 26 vikur á leið með mitt fyrsta barn og hef núna síðustu vikur verið allveg hræðilega slöpp.  Ég var aldrei neitt roslega slöpp í byrjun meðgöngunnar og ekki með neina ógleði. En núna síðustu vikur hef ég verið svo máttlaus og slöpp að ég hef varla getað lyft höndunum eða staðið upp úr sófa, stundum verð ég svo máttlaus að ég skelf og verð óglatt við það eitt að reyna halda mér uppi og svo á ég oft erfitt með að anda og svimar oft alveg svakalega, hvort sem ég sit, stend eða ligg, ég veit það að það er alveg eðlilegt að konur verði mjög þreyttar á meðgöngunni en mér finnst þetta ekki eðlilegt að hafa ekki orku í neitt. Blóðsykurinn og blóðþrýstingurinn hjá mér er allveg eðlilegur og þegar járnið var mælt var allt í fínasta lagi með það, ég borða ekki mikið nammi eða drekk gos, borða roslega hollan mat og mikið grænmeti og hef reynt næstum allt til að reyna safna orku en ekkert virðist duga.  Ég bara verð máttlausari með hverjum deginum. Ég sef mikið, yfirleitt í um 9-10 tíma á nóttu og verð svo að leggja mig yfir daginn. Þar sem mér finnst þetta rosalega óþægilegt var ég að vona að þið ættuð kannski einhver ráð handa mér, því ég var að vona að ég gæti nú farið að njóta þess að vera ólétt :)
Takk fyrir, Kolbrún


Komdu sæl Kolbrún.

Ég er sammála þér með það að þetta hljómar ekki eins og þetta sé eðlilegt.  Ég myndi ráðleggja þér að leita til læknis útaf þessu hann vill kannski taka einhverjar blóðprufur og athuga þetta nánar.  Hugsanlega ertu bara svona næm fyrir sykurfalli, hefur þú reynt að borða oft og sjá hvort þetta breytist eitthvað.  Oft verður viðkvæmni fyrir sykurfalli miklu ýktari á meðgöngu en annars og getur hugsanlega skýrt þessa vanlíðan en þá ætti það að lagast við það að borða.  Það er líka hugsanlegt að um einhverja sjúkdóma sé að ræða og því er nauðsynlegt að leita til læknis með þetta vandamál.  Ljómóðirin  þín getur komið þér að hjá lækni eða þú pantar bara tíma sjálf hjá heimilislækninum þínum.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir, 
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
03.02.2007.