Sleipiefni

20.03.2007

Sæl :)

Ég er gengin 32 vikur á leið og hef lítið sem ekkert stundað kynlíf á meðgöngunni.  Allavega hægt að telja það á fingrum annarar handar :)  En ég fór um daginn og keypti sleipiefni handa okkur því að það hefur verið svolítið sársaukafullt fyrir mig að stunda kynlíf vegna þess að ég næ ekki að blotna nóg við samfarir. Við notuðum bæði smokk og sleipiefnið, þar sem að ég heyrði að maður ætti að gæta að hreinlætinu og okkur datt í hug að limurinn yrði sleipari ef smokkurinn væri líka notaður og við notuðum sko vel af sleipiefninu.  Síðan las ég eftir á utan á flöskuna að maður ætti aðeins að nota nokkra dropa og að það gæti óvart drepið sæðisfrumur en væri samt ekki sæðisdrepandi krem og því ætti ekki að nota það ef maður er að reyna að verða ólétt.
Heldurðu að það sé samt ekki óhætt að nota það þegar maður er ólétt?  Sleipiefnið heitir ID glide og er vatnssleipiefni.  Heldurðu að það hafi ekki verið í lagi að nota vel af því og geta svona sleipiefni nokkuð skaðað eitthvað þar sem að slímtappinn er ennþá til staðar?

Kveðja ein forvitin


Komdu sæl.

Nú þekki ég ekki þetta ákveðna sleipiefni en svona vatnssleipiefni eru alveg hættulaus á meðgöngu og geta engan skaða gert heldur þvert á móti hjálpað í svona aðstæðum.   Það skiptir ekki máli þó slímtappinn fari þið getið samt haldið áfram að nota þetta.  Einmitt á þessum tímapunkti skiptir ekki máli þá nokkrar sæðisfrumur drepist :)

En grínlaust þá geta nokkrir dropar dugað en það er allt í lagi að nota mikið, það fer bara eftir því hvað ykkur finnst best.

Bestu kveðjur

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
20.03.2007.