Verkur í lífbeini

06.01.2018

Sælar ljósukrútt og takk fyrir frábæran vef, ég kiki alltaf hingað inn ef mig vantar upplýsingar og finn í 99% tilfella það sem ég leita að :) Hér er mjög löng saga til að útskýra ástand mitt eins ýtarlega og ég get til að komast vonandi að því hvort þetta sé komið til að vera :) Nú er ég gengin tæpar 16 vikur með annað barnið mitt og hef miklar áhyggjur af því að ég sé með byrjandi grindargliðnun. Ég lenti í slysi sumarið áður en ég varð ólétt af eldra barninu mínu sem er ný orðið tveggja ára þar sem ég tognaði í mjaðmagrind, ég hélt því allan tímann á meðan ég var ólétt síðast að grindin hlyti að fara að valda mér vandræðum en hún gerði það ekki fyrren daginn fyrir settan dag þegar ég hafði eytt alltof mörgum klukkutímum á búðarrápi svo að um kvöldið gat ég ekki lyft upp fótunum og grenjaði bara og ætlaði sko að láta setja mig strax af stað en ég skánaði síðan strax daginn eftir og barnið mitt kom með keisaraskurði 10 dögum seinna. Ég fór svo í yoga tíma þegar litli minn var um 3-4 mánaða þar sem við gerðum æfingu þar sem maður liggur á hlið, lyftir sér upp á olnboganum og lyftir upp öðrum fætinum. Ég fann hvernig eitthvað losnaði í lífbeininu við það og fékk stingandi verk og þurfti að fara úr tímanum. Eftir það fann ég til í nokkra daga og hef fundið mjög mjög vægt fyrir þessu við og við síðan þá en aldrei alvarlega. Þennan sama verk er ég núna búin að finna í allan dag eftir að hafa tekið létt rennerí yfir stofuna mína áðan, bara svona 10 mínútna dótatiltekt og skúrað yfir, ég er nánast búin að liggja í allan dag eftir þetta og finn stingina koma reglulega þó ég sé ekkert að gera og finn mjög vel fyrir þessu ef ég hreyfi mig eða geng um. Verkurinn lýsir sér eins og lífbeinið sé að klofna í tvennt og leiðir niður úr nára og niður í hné, en þetta er eins og væg útgáfa af þessu sem ég fékk þarna kasólétt í des 2015. Hvað segið þið sérfræðingar? Þarf ég að finna mér sjúkraþjálfara og færa skúringarnar yfir á pabbann eða hvað haldið þið að sé að gerast ?

Heil og sæl, mig grunar án þess að hafa skoðað þig að þetta sé grindargliðnun. Þú losnar ekki  við hana fyrr en barnið er fætt en þú getur lært að lifa með henni og lært á sjálfa þig hvað það er sem þú þolir að gera og hvað ekki. Ég ráðlegg þér að ræða málið við ljósmóðurina þína í meðgönguverndinni og fá ráðleggingar hjá henni. Mögulega getur sjúkraþjálfun komið sér vel amk. til að læra að beita líkamananum rétt. Oft fara skúringar og ryksugun illa í konur með grindargliðnun svo að það getur verið skynsamlegt að pabbinn taki það að sér þessar vikur sem eftir eru. Gangi þér vel.