Spurt og svarað

13. janúar 2018

Infant dyschezia?

Sæl og takk fyrir hjálplega síðu. Dóttir mín er þriggja vikna gömul, borðar vel og þyngist, og hefur fengið hæstu einkunn hjá öllu því heilbrigðisstarfsfólki sem hefur komið að ungbarnaeftirlitinu. Hún er vær og grætur ekki eða kvartar nema ærið tilefni sé til en síðustu fjóra til fimm daga hefur hún átt erfitt með að losa hægðir og rembist og grætur/öskrar með misjöfnum árangri. Hún verður rólegri þegar við tökum hana upp og sinnum henni; sérstaklega ef við höldum henni uppréttri, og hægðirnar skila sér að lokum, mjúkar og karrýgular, þegar hún nær að slappa af, t.d. á brjóstinu eða þegar hún dormar á milli svefns og vöku. Ég er að sjálfsögðu búin að gúggla einkennin og datt niður á það sem kallað er „infant dyschezia“ og er að velta því fyrir mér hvort það sé ekki akkúrat það sem er að angra litlu dúlluna mína. Á ég að bíða og sjá til hvort þetta lagast að sjálfu sér eða fara með hana til læknis? Ef vandinn er sá að hún er bara að læra að losa hægðir, hvað má gera ráð fyrir að það taki langan tíma? Þær upplýsingar sem ég hef fundið þar að lútandi eru í allar áttir; sumir segja að þetta taki um það bil tvær vikur, aðrir einhverja mánuði. Það er sárt fyrir okkur foreldrana að geta ekki hjálpað litlu dóttur okkur og við þiggjum allar ráðleggingar með þökkum.

Heil og sæl, þetta er nokkuð algengt að gerist og það finnst sjaldnast neitt að börnum sem haga sér svona og engin almennileg skýring er til. Sumir kalla þetta ungbarnakveisu, aðrir að görnin sé að þroskast. Þetta getur hætt jafn skyndilega og þetta byrjar. Foreldrar þurfa oft að læra inn á þetta og finna út hvað það er sem gagnast best í að hugga barnið og hlú að því. Miðað við hvernig þú lýsir einkennum finnst mér engin bein ástæða til að leita læknis að svo stöddu en ef þetta er ekki gengið yfir þegar þið farið í sex vikna skoðunina þá getur þú rætt þetta þar. Gangi ykkur sem allra best. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.