B12 skortur

04.07.2013
Sælar og takk fyrir frábæran vef.
Ég er gengin rúmlega 36 vikur og var að fá að vita að ég þjáist af B12 skorti og í beinu framhaldi kíkti ég hérna inn til að afla mér upplýsinga og komst að því að mikill skortur gæti valdið taugakerfisgöllum. Hverjir eru það nákvæmlega og er hægt að sjá það í sónar eða er það eitthvað sem kemur fyrst í ljós við fæðingu barnsins?
Kveðja, ein mjög óörugg og hrædd.
Komdu sæl!
B12 vítamín getur lækkað á meðgöngu, við mjög alvarlegan skort eykst hættan á taugakerfisgöllum eins og klofnum hrygg. Taugakerfi barnsins myndast á fyrstu vikum meðgöngu og í 12 vikna sónar eða 20 vikna sónar ætti að sjást ef hafa orðið miklir taugakerfisgallar. Vægur B12 vítamínskortur er yfirleitt eitthvað sem ekki þarf að hafa áhyggjur af á meðgöngu þar sem fóstrið gengur í B12 forða móðurinnar og safnar sér forða þannig. Vægur B12 skortur virðist ekki heldur auka hættuna á fæðingargöllum eða öðrum vandamálum.
Ég myndi ráðleggja þér að ræða þessar áhyggjur þínar við ljósmóðurina þína og lækninn þinn og fá að vita hversu alvarlegur B12 vítamínskorturinn er hjá þér. Ef hann er vægur er að öllum líkindum óþarfi að hafa áhyggjur að það hafi valdið einhverjum skaða.
Vonandi hjálpar þetta þér eitthvað og gangi þér vel.

 
Kveðja,
Súsanna Kristín Knútsdóttir,
Ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
4. júlí 2013