Spurt og svarað

09. desember 2008

Smá spurning - Legbotnshæð

Hæ, hæ!

Ég er með smá spurningar. Ég er 20 ára, gengin 28 vikur og 3 daga með mitt fyrsta barn. Allt er búið að ganga eins og í sögu, mér líður oftast eins og ég sé ekki ólétt :) Allt flott í mæðraskoðunum og svona. Í síðustu skoðun sagði ljósmóðirin að kúlan væri of lítil miða við mælikúrfuna. Er það hættulegt? Ég hef ekki hætt að hugsa um annað, held það muni 2 cm? Ég finn ennþá hreyfingar. Er ekki alveg eðlilegt sérstaklega á kvöldin að finnast eins og maginn sé að springa, kúlan verður svo hörð , mikill þrýstingur?

 
Endilega láttu mig vita :)

 

 

Sæl!

Það er ekki óalgengt að hæð legbotns mælist lægri stöku sinnum í mæðraskoðun. Þetta getur einfaldlega verið vegna þess að barnið liggur þvert í leginu. Ef ljósmóðirin hefur áhyggjur af hæð legbotnsins er líklegt að hún hafi styttra á milli skoðana hjá þér og fylgist með að barnið sé að vaxa eðlilega. En ef þér líður vel og finnur góðar hreyfingar og finnst sjálf vera breyting á milli vikna þarftu ekki að hafa miklar áhyggjur. Endilega ræddu þetta við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni.

Þegar líða fer á meðgönguna fer legið að æfa sig fyrir fæðinguna. Það gerir það þannig að legið dregst saman og kúlan harðnar. Þú finnur frekar fyrir þessu þegar þú ert þreytt eða hefur ekki drukkið nægan vökva. Ef þetta eru sársaukalausir samdrættir að kvöldi er þetta að öllum líkindum eðlilegt fyrirbæri þar sem legið er að æfa sig fyrir fæðinguna.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
9. desember 2008.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.