Söl

24.10.2006

Mér voru gefin söl um daginn og þegar ég var rétt búin að kyngja mundi ég eftir því að á meðgöngu mætti ekki borða hráan fisk, en hvað með annað í sjónum, s.s. söl?  Er óhætt að borða slíkt?   Sæl og blessuð! Takk fyrir að leita til okkar.

Við höfðum samband við Grím Ólafsson, sérfræðing á matvælasviði Umhverfisstofnunar. Hann taldi að það væri lítil hætta á örverumengun í sölvum vegna þess hversu lág vatnsvirkni er í þeim. Hann benti enn fremur á skýrslu frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sem heitir: „Athuganir á matþörungum við Ísland” þar sem m.a. voru skoðuð söl. Samkvæmt skýrslunni var vel að þessari framleiðslu staðið og örverumælingar sem hlunnindaráðunautur lét gera bentu ekki til neinnar örverumengunar. Þessi söl voru framleidd hjá Sævarfangi á Stokkseyri. Þetta segir hins vegar ekki að öll sölvaframleiðsla sé í lagi.

Kær kveðja,

yfirfarið  28.10.2015