Sólarlönd á meðgöngu

22.10.2006
Það er búið að vera að hræða mig mjög yfir því að ég fór til sólarlanda þegar ég var komin 3 mánuði á leið, ég var í 27-29°C í eina viku. Hvað er það sem getur gerst ef maður er í svona miklum hita og liggur í sólbaði? Ég er orðin frekar stressuð yfir þessu að það sé núna ekki allt í lagi með barnið
 
Komdu sæl.
 
Í rauninni er ekki nákvæmlega vitað hversu mikinn hita þarf til að valda barninu skaða, og það er heldur ekki vitað á hvaða tímabili meðgöngunnar helst ætti að varast mikinn hita.  Þumalputtareglan er sú að ef þér líður vel þá líður barninu líklegast líka vel. Ég held þú ættir að vera róleg yfir þessu og mundu að konur í heitum löndum ganga líka með börn og það virðist vera í lagi hjá þeim af hverju þá ekki hjá þér?

Gangi þér vel.

yfirfarið 28.10.2015