Spurt og svarað

26. júlí 2011

Sólgin í brunnar eldspýtur

Sælar ljósmæður!

Undanfarið hef ég fengið mikla löngun í að kveikja í eldspýtum og borða svo endann á þeim. Er það ekki óhollt fyrir barnið eða má leyfa sér þetta við og við? Veit að það eru margar konur sem fá „cravings“ fyrir þessu en vita ekki hvort þetta er skaðlegt eða ekki.

Með von um svör, Eldspýtumamman.


Sæl og blessuð og takk fyrir að senda þessa fyrirspurn því það er þörf á umræðu um þetta.

Margar konur fá óstjórnlega löngun í ákveðnar fæðutegundir á meðgöngu, t.d. súrar gúrkur eða ís. Svo eru til konur sem fá óstjórnlega löngun í efni sem ekki flokkast sem fæða og hefur lítið sem ekkert næringarinnihald. Dæmi um þessi efni eru drulla, krít, leir, steinar, kol, tannkrem, sápa, sandur, kaffikorgur, matarsódi, sígarettuaska og brunnar eldspýtur. Á ensku hefur þetta fyrirbæri verið kallað „pica cravings“ en „pica“ er latnesk orð yfir fugl (e. magpie, ísl. skjór) sem er þekktur fyrir að borða næstum hvað sem er.

Það er ekki vitað hvað veldur þessari löngun en hugsanlega gæti það tengst járnskorti eða vöntun á öðrum vítamínum. Einnig er hugsanlegt að þessi löngun tengist undirliggjandi sjúkdómum.

Það er ekki hollt að borða neitt af þessum efnum því þau geta valdið bæði móður og barni skaða og geta hindrað upptöku á næringarefnum úr fæðunni og ýtt þannig undir næringarskort.

Það er mikilvægt að hætta þessu strax. Prófaðu að fá þér tyggjó í staðinn. Þú skalt ræða þetta við ljósmóðurina þína sem fyrst því ef til vill þarf að skoða hvort þig skorti járn eða önnur vítamín.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. júlí 2011.

 

 Heimild: http://www.americanpregnancy.org/pregnancyhealth/unusualcravingspica.html

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.