Sónar á 11.-13. viku

10.12.2008

Ég er 28 ára og komin 9 vikur á leið. Hverjar eru líkurnar á því að fóstrið sé með litningagalla? Fyrir utan systur ömmu minnar sem var með downs heilkenni hefur enginn fæðst með litningagalla í fjölskyldum beggja foreldra. Ég bý erlendis og læknirinn mælti með þessum sónar, hér er boðið upp á sónar og hnakkaþykktarmælingu endurgjaldslaust. Ég verð hins vegar á Íslandi einmitt á 11. til 13. viku og það er svolítið vesen að komast í þetta þar. Hversu mikilvægt er það að fara í þennan sónar?


Sæl!

Líkur á litningagalla (Down´s  heilkenni) hjá 28 ára heilbrigðri konu eru 1 á móti 766. Þetta er skoðun sem er valfrjáls en er ekki einungis til að reikna út líkur á litningagalla. Tilgangur þessarar skoðunar er að staðfesta meðgöngulengd, fjölda fóstra, skoða fósturútlit m.t.t. mjög alvarlega fósturgalla eins og heilaleysi, nýrnagalla , kviðveggsgalla og fleira. Hafa verður í huga að flest börn fæðast heilbrigð en 2-5 % kvenna sem koma í 12 vikna skoðun fá vitneskju um vandamál. Þessi skoðun hefur verið í boði á Íslandi frá því í desember 1998, til að byrja með fyrir konur með sögu um fósturgalla áður og konur eldri en 35 ára. Síðast liðin 4 ár hefur þessi skoðun verið í boði fyrir allar konur og hafa 80-90 % kvenna þegið hana.

Kveðja og gangi þér vel,

María Jóna Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreinardeildar LSH,
10. desember 2008.