Spenna í legi

05.11.2007

Hæ hæ!

Ég er 27 ára og er gengin 14 vikur með mitt annað barn. Þannig er mál með vexti að alltaf eftir samfarir og stundum bara við smá áreynslu finnst mér eins og það komi svo mikil spenna í legið á mér eða magann. Er þetta eðlilegt og í lagi eða mælir þú með að ég tali við ljósmóður eða lækni. Er alltaf svo hrædd því ég hef misst.

Kveðja, Blómabuma.


 Sæl blómabumba.

Ég myndi telja þetta alveg eðlilegt en sennilega ert þú frekar næm á að finna þetta.  Það koma samdrættir í legið alla meðgönguna og eru eðlilegir, þeir koma frekar ef þú ert þreytt eða undir álagi og alveg örugglega við samfarir og fullnægingu.  Konur finna samt oftast ekki mikið fyrir þessu svona snemma á meðgöngunni og þess vegna giska ég á að þú sért næm fyrir líkama þínum og þekkir hann vel. 

Ég gef mér það að þú sért búin að fara í fyrstu skoðun, en ef þú ert ekki búin að skila þvagprufunni sem þér var sagt frá þá, mæli ég með að þú gerir það sem fyrst til að útiloka að þetta geti verið af völdum þvagfærasýkingar sem getur lýst sér með þessum hætti á meðgöngu.

Vissulega er erfitt að ganga með eftir missi en hlustaðu á líkama þinn, ef þú finnur einhver óléttueinkenni eins og spennu í brjóstum, ógleði eða þreytu þá eru allar líkur á að barninu líði bara vel, hormónarnir eru að vinna sína vinnu.  Þetta fer auðvitað minnkandi á þessum tíma en svo ferðu að finna hreyfingar sem segja þér að barnið lifir.  Ef þú ert óörugg þá skaltu endilega fara til ljósmóðurinnar þinnar og fá að heyra hjartsláttinn, þér léttir örugglega við það.

Vona að þetta svari spurningunni.

Bestu kveðjur,

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
5. nóvember 2007.