Sportþrenna

29.08.2010

Sælar og takk fyrir fróðlegan vef.

Getið þið upplýst mig um af hverju barnshafandi konur og konur með barn á brjósti ættu ekki að taka Sportþrennu frá Lýsi án samráðs við lækni (samkvæmt umbúðum vörunnar)? Fimmtán mánaða dóttir mín fær brjóst kvölds og morgna og frekari barneignir eru á döfinni. Hvaða áhrif hefur það á dóttur mína ef ég tek inn Sportþrennu? Getur það skaðað hana og þá hvernig? Ef ég yrði barnshafandi á meðan ég væri að taka inn Sportþrennu og áttaði mig ekki á þunguninni strax gæti það þá haft skaðleg áhrif á fóstrið?

Takk fyrir hjálpina.

Kveðja, María.


Sæl María!

Mér finnst líklegt að ástæðan sé sú að Sportþrenna innheldur ríflegt magn af vítamínum og steinefnum og er hugsuð fyrir þá sem vilja styrkja sig og auka getu í íþróttum og líkamsrækt og auka fitubrennslu líkamans. Á meðgöngu og þegar verið er með barn á brjósti er almennt ekki mælt með því að taka inn meira en ráðlagðan dagskammt af vítamínum og steinefnum m.a. vegna þess að áhrif þess eru óviss.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
29. ágúst 2010.