Stærð 20 vikna fósturs

24.11.2006

Góðan dag!

Ég er með fyrirspurn varðandi meðgöngulengd. Þannig er að ég fór í 20 vikna sónar um daginn, komin þá 19 vikur og 5 daga. Lærleggur mældist 31mm, höfuðmál 175,4mm og kviðmál mældist 149mm. Nú er talað um að útfrá þessum mælingum sé meðgöngulengdin metin, er einhvers staðar hægt að nálgast upplýsingar um meðalstærð (eðlilega stærð) 20 vikna fósturs? Ég bý erlendis og var að velta fyrir mér hvort þetta væri metið mismunandi milli landa? Ég er búin að fara þrisvar sinnum í sónar, alltaf til sömu ljósmóður, og væntanlegum fæðingardegi hefur ekki verið breytt. Er það eðlilegt?

Með þökk fyrir frábæran og fróðlegan vef, fröken 20 vikur.


Sæl!

Öll fóstur, sama hverrar þjóðar þau eru, eru jafn stór á fyrstu 20 vikunum. Þau eru u.þ.b. 25 cm löng frá hvirfli til ilja og um 300 gr að þyngd. Eðlilegt höfuðmál er um 49- 50mm breidd þvert yfir höfuð og lærleggur 31-32 mm og handleggur 31-32 mm. Það er venja á Íslandi að nota mælingarnar úr 20 vikna sónarnum til að reikna út væntanlegan fæðingardag, og er það gert þar sem 99% kvenna koma í þennan sónar.

Kveðja

Yfirfarið 29.10.2015