Stærð barna

23.06.2008

Sælar,

Mig langaði að forvitnast um það hvað það er sem hefur áhrif á stærð barna. Hefur matarræði einhver áhrif á það hversu stór þau verða ? Eða er þetta eitthvað fyrirfram ákveðið með litningum?

Ég veit að meðgöngusykursýki hefur þau áhrif að þau stækka um of en er eitthvað fleira sem gæti valdið því að þau stækki meira en þau ættu að gera?

Og er eitthvað sem að hægt er að gera til þess að koma í veg fyrir það að barnið verði stórt?

Kveðja.


Komdu sæl.

Mataræði móður á meðgöngu hefur heilmikið um það að segja hversu stórt barnið verður, en æskilegt er að borða hollan og fjölbreyttan mat og þyngjast (ef konan er í kjörþyngd) um 12 - 18 kíló á meðgöngunni því þá fær barnið gott tækifæri til að vaxa og þroskast eðlilega.  Ekki er ráðlegt að halda í við sig í mat á þessum tíma þar sem það getur komið niður á heilsu barnsins og of mikil þyngdaraukning og óhollur matur getur bæði leitt til stærra barns og heilsufarsvandamála.

Vissulega hafa litningarnir eitthvað að segja líka og börn stórra foreldra eru oft stærri við fæðingu en börn sem eiga lágvaxna foreldra.

Annað er auðvitað meðgöngusykursýkin og svo getur mikill bjúgur líka haft einhver áhrif.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
23. júní 2008.