Stálmi á meðgöngu?

06.05.2007

Sælar og takk fyrir ljómandi góðan vef sem kemur að góðum notum

Ég er gengin með 39 vikur og 5 daga og er með svo mikinn verk í brjóstinu líkt og það sé kominn stálmi. Ég er hálf undrandi að vera kominn með stálma og barnið ekki fætt. Getur svona gerst?

Takk.


Sæl og blessuð.

Já, fræðilega séð er þetta alveg hægt. Þegar losnar um lítinn hluta fylgjunnar geta losnað hormón í nægu magni til að setja mjólkurframleiðslu í gang. Tveim til þrem dögum seinna stálma brjóstin. Ég tel hins vegar frekar ótrúlegt að þú hafir lent í þessu. Þú hefðir trúlega mörg önnur einkenni þ.á.m. blæðingu og svo er þetta mjög sjaldgæft. Það er hins vegar miklu algengara að brjóstvefurinn taki rosalegan þroskakipp rétt fyrir fæðingu. Það lýsir sér með þrota í brjóstum, eymslum, auknum broddleka og verkjum. Þetta er bara síðasta atriðið til að hafa brjóstin tilbúin fyrir barnið og það er ákveðin breyting á hlutfalli hormónanna sem stjórna þessu.

Vona að allt gangi vel.   

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. maí 2007.