Staðsetning barns

21.04.2015

Sælar og takk fyrir frábæran vef :) Ég fjárfesti í doppler og er nánast búin að nota hann daglega núna í 10 daga (er komin 17v5d og ekki byrjuð að finna neinar hreyfingar), nota hann samt bara í stuttan tíma í senn. Það er kannski asnalegt að vera að pæla svona mikið í þessu, en það eru ótrúlegustu hlutir sem maður hefur áhyggjur af á meðgöngunni. Málið er að ég finn hjartsláttinn alltaf á nákvæmlega sama stað, neðarlega til hægri. Tek það fram að ég þekki muninn á slættinum í fylgjunni og hjartslættinum hjá krílinu, ljósmóðirin mín leyfði mér að heyra muninn síðast þegar ég fór í mæðraverndina. Hann er hægari og þyngri í fylgjunni og er alltaf vinstra megin við hjartsláttinn hjá krílinu, sem er sterkur og flottur :) Spurningin mín er þessi: Er alveg í lagi að það sé eins og krílið sé ekkert að hreyfa sig um og haldi sig alltaf á sama staðnum? Bestu kveðjur

 

Heil og sæl, það er algjörlega eðlilegt að heyra hjartsláttinn alltaf á sömu slóðum. Barnið hreyfir sig heilmikið þó að það fari ekki svo langt að hjartsláttur sé á öðrum stað. Á næstu vikum ferðu að finna hreyfingar og þá geturðu miklu betur fylgst með barninu þínu. Gangi þér vel.

Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
21. apríl 2015