Spurt og svarað

24. febrúar 2007

Staðsetning fylgju

Sælar kæru ljósmæður.

Þúsund þakkir fyrir þessa frábæru síðu, sem hefur sko svarað og hjálpað mörgum í gegnum meðgönguna.

Ég var að velta einu fyrir mér. Getur það skipt einhverju máli hvar fylgjan er staðsett á meðgöngunni?  Veit að oft er talað um fyrirsæta fylgju.Hvað ef hún er beint framan á, finnur maður þá fyrir minni hreyfingum? Bara smá vangaveltur.

Með fyrirfram þökk og von um svör.


Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Ef þú leitar á síðunni okkar undir „framstæð fylgja“ finnur þú gott svar við vangaveltum þínum hvað varðar staðsetningu fylgjunnar og skýringar á „skynjun“ konunnar á hreyfingum barnsins m.t.t. fylgjunnar.

Það er talað um fyrirsæta fylgju ef fylgjan að öllum eða að hluta til hylur legopið, en þetta er fremur sjaldgæft og talið eiga sér stað í 0,3-0,5% tilvika, eða í einni af hverri 200 þungunum. Það er talað um þrjár gerðir af fyrirsætri fylgju; Fullkomin fyrirsæt fylgja ef fylgjan algjörlega hylur legopið, að hluta til fyrirsæt fylgja (partial placenta previa)  ef aðeins hluti af legopinu er hulið fylgju og lágsæt (marginal placenta previa) fylgja ef hún bara rétt tyllir í legopið.

Í sónarskoðun við 18-20 vikur eru aðal líffærakerfi fósturs skoðuð og fylgja staðsett. Ef fylgja er greind sem lágsæt/fyrirsæt ber að athuga að í yfir 90% tilvika er slík fylgja ekki lengur lágsæt/ fyrirsæt á síðasta þriðjungi meðgöngu vegna þess að þegar legbolur vex, færist fylgjubeður ofar og frá innra legopi.

Alvarlegustu aukaverkanir fyrirsætrar fylgju eru blæðingar og því þurfa konur sem eru með fyrirsæta fylgju að vera í sérstöku eftirliti og liggja yfirleitt inni á spítala síðustu vikur meðgöngunnar. Þessar konur þurfa að sjálfsögðu að fæða sín börn í keisarafæðingu.

Vona að þetta svari einhverjum vangaveltum,

Kærar kveðjur,

Steinunn H.Blöndal,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. febrúar 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.