Bakflæði á meðgöngu

26.09.2007

Ég var að spá hvort hægt væri að fá bakflæði á meðgöngu?  Ég er komin 29 vikur á leið og finn oft eins og maturinn sé að koma upp úr mér, meira að segja ef ég begji mig niður þá finnst mér allt vera að koma upp þó það sé kannski langt síðan ég borðaði. Ég hef svosem ekki ælt en finnst maturinn oft vera upp í háls samt borða ég ekki mikið. Getur þetta verið bakflæði eða hvað?

 


Komdu sæl.

Þetta getur vel verið tilfinning sem stafar af því að barnið og legið er farið að þrýsta á magann og hann hefur minna pláss en áður.  Brjóstsviði er t.d. mjög algengur á meðgöngu en þá þrýstist magainnihald upp í vélindað og veldur verkjum eða sviða.  En þú talar nú ekkert um það.  Það getur hjálpað þér að borða oft og lítið í einu og vera upprétt eftir máltiðir og jafnvel sofa með hátt undir höfði og öxlum.  Önnur ráð sem virka við brjóstsviða en gætu líka hjálpað þér getur þú fundið hér á síðunni undir leitarorðinu "Brjóstsviði".

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
26. sept. 2007.