Spurt og svarað

15. nóvember 2004

Stingir í bumbunni

Hæ!

Ég er komin 23 vikur á leið núna, og er farin að sofa MJÖG illa á næturnar er alltaf af vakna! Ég fæ stundum stingi neðst í bumbuna þegar ég bylti mer og þegar ég geng. Reyndar fæ ég líka stundum smá stingi í leggöngin þegar ég stend upp og þegar ég labba og einnig er ég farin að fá samdrætti (eða það finnst mér - kúlan harðnar). Ég á pantaðan tíma í aukaskoðun en hann er ekki fyrr en eftir 3 daga og ljósan min er bara við einu sinni í viku! Þetta er meðganga númer 2 og ég man ekki eftir þessu á fyrri. Vona að einhver geti svarað mér sem fyrst.

Kveðja, Ég. 

Þetta er frábær vefur er mikið búin að skoða hann.

.............................................................................

Sæl og blessuð!

Þú ert að komast á þann tíma meðgöngunnar þar sem kúlan fer að stækka töluvert mikið og því geta fylgt ýmis konar óþægindi, legið getur þrýst á taugar og það tognar á legböndunum sem eru nokkurskonar liðbönd sem halda leginu á sínum stað í grindarholinu. Mér finnst sem sagt líklegast að þessir stingir sem þú finnur fyrir séu einhverskonar vaxtarverkir og séu því saklausir þó að ég viti að þeir getir verið óþægilegir. Þó þú sért með þessa verki þessa dagana þá þarf alls ekki að vera að þú verðir með þá það sem eftir er meðgöngunnar.  Reyndu að fara í sund og synda rólega og sitja svo smá stund í heita pottinum, það gæti verið þægilegt.

Samdrættirnir sem þú ert farin að finna eru líka eðlilegir svo lengi sem þú færð ekki verki með þeim. Þetta eru hálfgerðir æfingasamdrættir og eru eðlilegur hluti af meðgöngu, kúlan harðnar upp og mýkist svo á milli, en eins og ég sagði þá ættir þú ekki að finna fyrir verkjum eða sársauka með þessum samdráttum. Samdrættirnir ættu heldur ekki að vera fleiri en 4 á klukkustund.

Þú segir að þú hafir ekki fundið fyrir þessu á síðustu meðgöngu en hver meðganga er einstök og þessi einkenni eru langlíklegast alveg hættulaus. Þú skalt samt segja ljósmóðurinni þinni frá þessu í næstu skoðun og benda henni á hvar stingirnir eru þannig að hún geti metið þetta fyrir þig (það er alltaf svolítið erfitt að gera það svona í gegnum netið).

Varðandi svefninn þá skaltu reyna að koma þér sem best fyrir í rúminu með nóg af koddum í kringum þig, undir bumbunni, við bakið og á milli hnjánna.  Líklega líða þessir stingir nú hjá á einhverjum tíma og þá getur þú vonandi farið að sofa betur, en þangað til þá verður þú bara að reyna að vera þolinmóð.

Það góða við erfiðar meðgöngur er að maður getur alltaf huggað sig við að þær taka að lokum enda og ekki nóg með það heldur fær maður líka heimsins bestu verðlaun fyrir allt saman  ;)

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Halla Björg Lárusdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir,
15. nóvember 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.